Innlent

Telur Matvælastofnun vilja koma ábyrgðinni í díoxínmáli yfir á KS

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði.
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði.
„Það virðist ákaflega villandi, þó það sé hugsanlega rétt, að segja að sláturleyfishafar hafi sjálfir tekið ákvörðun um að innkalla kjöt af gripum og láta í veðri vaka að Matvælastofnun hafi þar hvergi komið nærri,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði.

Í Fréttablaðinu í gær neitaði Kjartan Hreinsson, dýralæknir hjá Matvælastofnun, fullyrðingu Gísla um að stofnunin hefði innkallað kjöt af Evrópumarkaði eftir að díoxín mældist í kjöti úr Engidal í Skutulsfirði.

„Greinilegt er að MAST vill koma ábyrgðinni af málinu yfir á KS, sem virðist hafa innkallað lambakjöt frá Evrópu eftir hvatningu frá MAST, eða á bændurna sjálfa, sem neyddust til að slátra fé sínu þar sem MAST hafði lagt bann við dreifingu búfjárafurða af svæðinu,“ segir Gísli.

Bæjarstjórinn nefnir dæmi um að MAST hafi beint því „til sláturleyfishafa og kjötvinnslufyrirtækja að rekja hvort enn væri kjöt á markaði og innkalla það“.

Gísli segir að á þessum tíma hafi enginn þorað að taka af skarið og fyrirskipa fellingu bústofnsins. „Sú staða var náttúrlega óboðleg og neyddust þeir því sjálfir til að taka af skarið,“ segir Gísli. Vissulega hafi eitt sýni úr nautahakki verið lítillega yfir öryggismörkum. „En var það næg ástæða til að verða þess valdandi að innkalla lambakjöt af Evrópumarkaði og fella allan bústofn í Engidal?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×