Lífið

Vilja opna umræðuna um einelti á netinu

Halldóra ásamt krökkunum sem taka þátt í myndinni.
Halldóra ásamt krökkunum sem taka þátt í myndinni. Vísir
„Ég er búin að vera með þessa hugmynd um forvarnarstarf með unglingum lengi,“ segir Halldóra Guðjónsdóttir, leikkona og hótelstjóri

Hún er einn af aðstandendum stuttmyndarinnar Teiknimyndir, forvarnarmyndar um einelti. „Þetta verkefni er búið að vera í gangi lengi. Hugmyndin kviknaði fyrst á leiklistarnámskeiði í ágúst 2013, en þar hitti ég leikarana þrjá, sem allir eru frá Hvammstanga,“ segir Halldóra. Með þeim í verkefninu eru Natan Jónsson, leikstjóri og rithöfundur, og Þórunn Guðlaugsdóttir, leikkona og framleiðandi.

Í framhaldinu ræddu þau sín á milli hugmyndir fyrir myndina. „Krakkarnir vildu taka á einelti og þá sérstaklega neteinelti og skapa grundvöll fyrir foreldra, kennara og bara alla og opna umræðuna,“ segir hún, en myndin er sýnd frá sjónarhorni þolenda, gerenda og áhorfenda.

Halldóra segir þau hafa verið sammála um að eineltismál séu langt frá því að vera einföld. „Þetta er ekki svona svart og hvítt. Það er ekki hægt að segja „hættu að stríða““ segir Halldóra.

„Verkefnið er hugsað sem forvarnarverkefni og erum við í viðræðum við menntamálaráðuneytið að sýna myndina, sem nú er tilbúin til sýninga, í grunn- og framhaldsskólum landsins og út frá henni muni krakkarnir vinna verkefni sem hentar hverjum og einum best,“ segir Halldóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×