Innlent

Telja vinnslu á Vopnafirði vel í sveit setta

Sveinn Arnarsson skrifar
Frá Vopnafirði. Forsvarsmenn Vopnfisks ehf. telja sig geta unnið allan aflann í fullnýttum byggðakvóta.
Frá Vopnafirði. Forsvarsmenn Vopnfisks ehf. telja sig geta unnið allan aflann í fullnýttum byggðakvóta. VÍSIR/PJETUR
Fiskvinnsla Vopnfisks á Vopnafirði telur sig í stakk búna til að taka við öllum þeim afla sem fyllir byggðakvótann sem Vopnafjarðarhreppur hefur fengið úthlutað á yfirstandandi fiskveiðiári og gagnrýnir fullyrðingar sveitarstjórnar um að ekki séu haldbær rök fyrir því að fiskvinnsla sé á Vopnafirði.

Vopnafjarðarhreppur fékk úthlutað 300 tonna byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári. Einnig færast frá fyrra fiskveiðiári um 250 tonn. Því geta vopnfirsk skip nýtt um 550 tonna byggðakvóta til 31. ágúst á þessu ári.

Vopnafjarðarhreppur hefur sent atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu bréf og óskað eftir undanþágu frá vinnsluskyldu byggðakvóta og vill flytja aflann á markað eða vinna hann í öðru byggðarlagi.

Finnbogi Vikar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vopnfisks ehf. sem rekur fiskvinnslu á Vopnafirði, telur vinnsluna fullfæra um að taka á móti öllum þeim afla til vinnslu sem kemur í sveitarfélaginu. „Við settum upp vinnsluna síðasta vor og ákváðum að fara varlega fyrst um sinn, ráða ekki of marga starfsmenn og láta hlutina þróast hægt og rólega. Nú er staðan þannig að vinnslan er tilbúin að taka á móti öllum byggðakvóta og er fullfær um það. Hún er vel tækjum búin og er opin. Það er því ekki rétt hjá forsvarsmönnum hreppsins að ekki sé til staðar vinnsla,“ segir Finnbogi Vikar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×