Spáð er heiðskýru veðri á Norðurlandi og Vesturlandi og ætti blóðrautt tunglið því að sjást nokkuð vel þaðan. Það gæti rofað til suðvestanlands og því ekki útilokað að íbúa höfuðborgarsvæðisins gæti beðið mögnuð sjón. Sömuleiðis er spáð léttskýjuðu veðri á Egilsstöðum. Vísir hvetur hér með lesendur til að senda inn myndir sínar af „blóðmánanum“ og verða þær bestu birtar á vefnum á morgun.
Á Stjörnufræðivefnum kemur fram að myrkvinn muni hefjast klukkan 00:12, en að á milli 02:11 og 03:23 verði tunglið almyrkvað og þá blóðrautt á himni. Tunglmyrkvinn á sér stað á stærsta fulla tungli ársins, þegar tunglið er næst jörðinni, sem stundum er kallað „ofurmáni“.
Tunglmyrkvar sjást frá allri næturhlið jarðar, ólíkt sólmyrkvum sem sjást aðeins frá takmörkuðu svæði á jörðinni. Í þetta sinn sést hann best frá Norður-Ameríku og Evrópu, og að öllu leyti frá Íslandi.
Vísir tekur við myndum á póstfanginu ritstjorn@visir.is.