Í myndbandinu má sjá rapparana Helga Sæmund Guðmundsson og Arnar Frey Frostason sækja Bíladaga og fangar myndbandið vel þá stemningu sem myndast á Akureyri í kringum hátíðina. „Manni finnst ótrúlega skemmtilegt að vinna með svona fólki eins og Magga, sem hefur skýra sýn og sér hlutina öðruvísi en maður sjálfur gerði. Svoleiðis finnst mér að samstarf eigi að vera,“ útskýrir Arnar Freyr.
Í myndbandinu má sjá rapparana klædda í boli sem greinilega eru frá tíunda áratug síðustu aldar. „Þetta kemur allt frá Magga, þetta var hans hugmynd,“ segir Arnar. „Já, þetta tengist „nineties-blætinu“ mínu,“ segir Magnús. Arnar klæðist í forláta Cheerios-bol sem erfitt var að fá að sögn Magnúsar og eru félagarnir í bolum merktum NBA-leikmönnunum Kurt Rambis og Bill Laimbeer. „Þeir eru uppáhalds NBA-týpurnar mínar.“
Magnús segir að þeir hafi ákveðið að sækja Bíladaga á Akureyri án þess að vera með allt handritið tilbúið þegar lagt var í hann. „Við vorum ótrúlega heppnir hvað okkur var vel tekið. Við fengum mjög jákvæð viðbrögð við þessu og það hjálpaði okkur að gera betra myndband,“ útskýrir leikstjórinn.