Enski boltinn

Cech fer í læknisskoðun hjá Arsenal í dag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Petr Cech skiptir um lið en þarf ekki að flytja.
Petr Cech skiptir um lið en þarf ekki að flytja. vísir/getty
Tékkinn Petr Cech, sem varið hefur mark Chelsea undanfarinn áratug, gengst undir læknisskoðun hjá Arsenal í dag og klárar félagaskipti sín til liðsins.

Þetta fullyrðir David Ornstein, blaðamaður hjá BBC, á Twitter-síðu sinni í dag, en áður hefur komið fram að Chelsea samþykkti ellefu milljóna punda tilboð Arsenal í markvörðinn.

Cech er einnig búinn að ganga frá sínum málum varðandi kaup og kjör og á nú bara eftir að klára læknisskoðunina áður en hann verður myndaður með Arsenal-treyjuna.

Tékkneski landsliðsmarkvörðurinn er 33 ára gamall og á að baki 332 leiki með Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.

Hann var lykilmaður í sigurliðum Chelsea í úrvalsdeildinni í þrígang; 2005, 2006 og 2010, en sat á bekknum stærstan hluta síðustu leiktíðar þegar Chelsea vann úrvalsdeildina í fjórða sinn.

Cech hefur þrívegis hlotið gullhanskann sem sá markvörður sem heldur oftast hreinu í ensku úrvalsdeildinni, síðast 2014. Þá hefur hann tvívegis verið í liði ársins í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×