Innlent

„Þetta er til háborinnar skammar“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurjón og kona hans ætluðu að gefa hestunum brauð að borða. Hestarnir komust hins vegar ekki að girðingunni til að fá sér brauð að sögn Sigurjóns.
Sigurjón og kona hans ætluðu að gefa hestunum brauð að borða. Hestarnir komust hins vegar ekki að girðingunni til að fá sér brauð að sögn Sigurjóns. Mynd/Sigurjón Guðmundsson
Sigurjón Guðmundsson, áhugaljósmyndari á Hellissandi, myndaði að því er virðist illa farna hófa á hestum sem standa úti austan við Akrafjall nærri Hvalfjarðargöngunum í gær. Sigurjón var í för með konu sinni sem ætlaði að gefa hestunum brauð í kuldanum.

„Hestarnir komust ekki til okkar,“ segir Sigurjón sem veitti því athygli að þeir virtust ekki geta gengið heldur var eins og þeir skautuðu. Hestarnir fengu því ekkert brauð og héldu hjónakornin heim á leið þar sem Sigurjón byrjaði að setja myndirnar inn á tölvuna.

Hófar eins hestsins.Mynd/Sigurjón Guðmundsson
„Þegar ég var að setja myndirnar inn þá sá ég þetta,“ segir Sigurjón sem í kjölfarið tilkynnti um málið til Matvælastofnunar Íslands. Hann telur hófana illa farna á að minnsta kosti fjórum hestum. Svo virðist sem hófarnir hafi ekki verið klipptir í lengri tíma.

„Þetta er til háborinnar skammar,“ segir Sigurjón. Hann setur stórt spurningamerki hve víða hestar virðast vera látnir standa úti hér á landi og víða vanti skjólveggi.

Sigurjón segir að Matvælastofnun hafi ætlað að koma málinu áfram til dýralækna stofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×