Southampton sneri aftur með stæl í Evrópufótboltann í gærkvöldi þegar liðið lagði Vitesse Arnhem frá Hollandi, 3-0, í fyrri leik liðanna í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.
Dýrlingarnir voru fyrir leikinn ekki búnir að spila Evrópuleik í tólf ár, en aðeins eru tvö ár síðan liðið sneri aftur í úrvalsdeildina.
Southampton varð fyrir áfalli í leiknum þegar nýi hollenski miðjumaðurinn Jordy Clasie þurfti að fara af velli vegna meiðsla og bíða menn á St. Marys nú eftir að fá að vita hversu lengi hann verður frá.
„Clasie stóð sig vel. Hann hjálpaði Victor Wanyama á miðjunni sem var stórkostlegur og gerði allt auðveldara fyrir Clasie. Það er bara synd að hann hafi tognað aftan í læri,“ sagði Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Southampton, eftir leikinn.
Claise var fenginn frá Feyenoord í Hollandi sem arftaki Frakkands Morgans Schneiderlins sem var keyptur til Manchester United í sumar.
Clasie var fastamaður í byrjunarliði Feyenoord frá 2012 og er honum ætlað stórt hlutverk í liði Dýrlinganna í ensku úrvalsdeildinni á komandi árum. Nú er þó óvíst hvort hann verði með þegar deildin hefst um næstu helgi.
Arftaki Schneiderlin byrjaði á því að meiðast
Tómas Þór Þórðarson skrifar
