Enski boltinn

Lambert kominn til West Brom

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lambert hefur leikið 11 landsleiki fyrir England og skorað þrjú mörk.
Lambert hefur leikið 11 landsleiki fyrir England og skorað þrjú mörk. vísir/getty
Stuttri dvöl Rickie Lambert hjá Liverpool er lokið en framherjinn er genginn í raðir West Brom.

Talið er að kaupverðið sé í kringum þrjár milljónir punda en Lambert skrifaði undir tveggja ára samning við West Brom sem endaði í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

„Rickie er góður, sterkur og traustur leikmaður og er auk þess flottur persónuleiki og sterkur í búningsklefanum,“ sagði Tony Pulis, knattspyrnustjóri West Brom, um nýja leikmanninn sem var úthlutað treyjunúmerinu 17.

Lambert gekk til liðs við Liverpool frá Southampton fyrir síðasta tímabil en hann var á mála hjá Bítlaborgarliðinu sem unglingur og dreymdi alltaf um að spila með því.

Lambert náði sér ekki á strik með Liverpool í vetur og skoraði aðeins þrjú mörk í 36 leikjum með liðinu.

Hann átti hins vegar frábæran tíma hjá Southampton en hann lék með liðinu í fimm ár og skoraði 117 mörk í 235 leikjum fyrir Dýrlingana.

Lambert er þriðji leikmaðurinn sem Pulis fær til West Brom í sumar á eftir James McClean og James Chester.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×