Fótbolti

Zlatan sagði Frakkland vera skítaland og fékk fjögurra leikja bann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan þarf að finna sér eitthvað að gera á kvöldin.
Zlatan þarf að finna sér eitthvað að gera á kvöldin. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic, framherji Paris Saint-Germain í Frakklandi, hefur verið úrskurðaður í fjögurra leikja bann í frönsku deildinni fyrir að móðga dómara.

Zlatan missti sig eftir 3-2 tap gegn Bordeaux 15. mars og hellti sér yfir einn dómara leiksins. Hann lét út úr sér orð sem Frakkar eiga erfitt með að fyrirgefa.

„Á fimmtán ára ferli hef é aldrei séð svona dómgæslu. Þetta skítaland á PSG ekki skilið. Við erum of góðir fyrir þetta land,“ sagði Zlatan.

Zlatan baðst afsökunar á ummælum sínum eftir leik og tók fram að hann var ekki að tala um frönsku þjóðina.

„Ég vil taka skýrt fram að ég var ekki að beina orðum mínum að landinu eða fólkinu sem býr hér. Ég var bara að tala um fótbolta. Ég vil biðja þá afsökunar sem ég móðgaði," sagði Zlatan.

Sænski framherinn fær að spila leik PSG gegn Bastia í úrslitum deildabikarsins á laugardaginn en verður svo í banni í næstu fjórum leikjum í deildinni á móti Nice, Lille, Metz og Nantes.

Við það bætist svo eins leiks bann í Meistaradeildinni sem hann tekur út í fyrri leik PSG gegn Barcelona í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×