Innlent

Telja lítinn hag af sameiningu háskólanna

Sveinn Arnarsson skrifar
Gangi hugmyndir menntamálaráðherra eftir munu þrír háskólar í Norðvesturkjördæmi sameinast í eina sjálfseignarstofnun.
Gangi hugmyndir menntamálaráðherra eftir munu þrír háskólar í Norðvesturkjördæmi sameinast í eina sjálfseignarstofnun. fréttablaðið/gva
Hugmynd Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um að sameina þrjár háskólastofnanir í Norðvesturkjördæmi í eina hefur ekki verið rædd við alla þrjá rektora skólanna. Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, telur litla möguleika á samlegðaráhrifum vegna sameiningar.

Tveir háskólar eru með aðsetur í Borgarbyggð, það eru Bifröst og Landbúnaðarháskólinn. Hugmyndir ráðherra ganga út á að sameina þessa skóla auk Háskólans á Hólum í Hjaltadal, í eina sjálfseignarstofnun.

Erla Björk Örnólfsdóttir
Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, hefur ekki fengið erindi þess efnis inn á borð til sín og ekki verið boðuð á fund með ráðherra menntamála. Það boð hafa hins vegar Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskólans, og Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, fengið og sótt fund ráðherrans um hugmyndir að sameiningu háskólastofnananna þriggja.

Björn Þorsteinsson segir samlegðaráhrifin af mögulegri sameiningu lítil. „Að mínu mati er mjög erfitt að sameina þessar þrjár háskólastofnanir. Í dag erum við í samvinnu með Háskólanum á Bifröst í ákveðnum þáttum skólastarfsins og einnig erum við í samvinnu við Háskólann á Hólum. Ég sé ekki mikil samlegðaráhrif að sameina stofnanirnar undir einn hatt að svo stöddu. Það getur einnig verið aukinn kostnaður í því að reka stofnanir á þremur stöðum,“ segir hann.

Björn telur þó að hægt sé að skoða þetta með opnum hug. „Við vitum að stofnanirnar hafa átt í ákveðnum þrengingum og þessar stofnanir eru tiltölulega veikar fjárhagslega. Það er þó hægt að skoða þessar hugmyndir ráðherra með opnum hug og fara yfir málin en þá þarf líka að horfa á hlutina með sanngjörnum augum og fara mjög vel ofan í saumana á sameiningarhugmyndum.“

Erla Björk, rektor Háskólans á Hólum, sagðist ekki getað tjáð sig um hugmyndir ráðherra að svo stöddu þar sem hún hefði engar upplýsingar fengið um í hverju sameiningin fælist. Að hennar mati þyrfti ráðherra menntamála að sýna á spilin til að hægt væri að ræða málið af yfirvegun.

Ekki náðist í Vilhjálm Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, þar sem hann var staddur á ráðstefnu erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×