Á árinu 2014 var umferðin 8,6 prósentum meiri en árið þar á undan. Því er ekkert lát á aukningu umferðar um svæðið. Verði áframhald á þessari miklu aukningu verður slegið nýtt met í umferðarmagni yfir skarðið. „Núgildandi met var sett árið 2010 þegar um 1.250 bílar fóru um skarðið að meðaltali á degi hverjum. Þessi þróun er vel í samræmi við umferðarspá Vegagerðarinnar sem gerð var 2012,“ segir Friðleifur Ingi Brynjarsson, sérfræðingur hjá Vegagerðinni. „Allt eins gæti farið svo að um 470 þúsund bifreiðar fari um Víkurskarðið á þessu ári sem er nokkru meira en spár gerðu ráð fyrir. Líklegasta spá gerði ráð fyrir um 1.230 bifreiðum á dag í ár en þessi umferðaraukning gæti skilað um 1.270 bifreiðum á sólarhring að meðaltali.“

Vaðlaheiðargöng, sem nú er verið að vinna að, stytta leiðina frá Akureyri og austur fyrir Vaðlaheiði og munu draga verulega úr umferð um skarðið og umferðin færist nær alfarið í hin nýju göng. Þessi aukning gæti þá styrkt rekstrarforsendur Vaðlaheiðarganga.
Gerð Vaðlaheiðarganga hefur lítið miðað undanfarið eftir að vatn fór að flæða inn í göngin Fnjóskadalsmegin. Enn rennur mikið vatn í göngin eða um 420 lítrar á sekúndu. Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf., segir líklegt að menn hefjist ekki handa við að bora fyrr en um miðjan mánuðinn. „Við erum farnir að hefja prufanir á dælum Fnjóskadalsmegin og unnið er að öðrum tilfallandi verkefnum á meðan við getum ekki haldið gangagreftri uppi. Það eru þó störf sem þarf að vinna svo við nýtum tímann vel,“ segir Valgeir.