Innlent

„Börn finna alltaf göt“

Atli Ísleifsson skrifar
Helga Þórey Júlíudóttir, móðir hins tveggja og hálfs árs gamla Róberts Ómars Þorsteinssonar, segir það kraftaverk að barnið hafi lifað fallið af.
Helga Þórey Júlíudóttir, móðir hins tveggja og hálfs árs gamla Róberts Ómars Þorsteinssonar, segir það kraftaverk að barnið hafi lifað fallið af. Vísir/Innsent/Andri Marinó/Stefán
„Börn finna alltaf göt. Ef það eru göt eða bil þá munu börn finna þau,“ segir Herdís Storgaard, verkefnastjóri hjá Miðstöð slysavarna barna, um slysið sem varð í Smáranum um helgina þar sem tveggja ára drengur féll rúma þrjá metra niður úr áhorfendastúku. Herdís segir ljóst að í þessu tilfelli hafi ekki verið farið eftir settum reglum.

„Síðastliðin ár hef ég verið að fá tilkynningar um sambærileg slys þar sem umhverfið eða húsnæðið á í hlut. Bæði er um að ræða gesti á leikjum eða þeir sem eru að iðka íþróttir sem eru að slasa sig. Þá hefur komið í ljós að umhverfið er ekki í lagi. Settum reglum hefur þá ekki verið framfylgt,“ segir Herdís.

Árið 2002 voru settar reglur sem var ætlað að auka öryggi í íþróttahúsum. „Það er ekki bara íþróttaiðkunin sem slík, heldur getur umhverfið oft haft mjög sterk áhrif á það. Eins og í þessu tilfelli þá er ljóst að ekki hefur verið farið eftir þeim leiðbeiningum sem þar eru. Svona lagað á ekki að geta gerst,“ segir Herdís.

Eru öryggismálin frekar sniðin að fullorðnum?

„Auðvitað er það þannig að í þessu tilviki færu fullorðnir ekki að detta þarna niður. Nema þá ef þeir stigu þarna niður og gætu þá stórslasað sig, þó þeir húrri ekki alla leiðina niður.“

Herdís beinir þeim orðum til íþróttafélaganna að kynna sér þessar reglur sem gefnar voru út. „Þær voru gefnar út til að auka öryggi bæði þeirra sem koma á staðinn til að iðka íþróttir og þeirra sem koma til að fylgjast með.“

Helga Þórey Júlíudóttir, móðir hins tveggja og hálfs árs gamla Róberts Ómars Þorsteinssonar, sagði í samtali við Vísi í gær að Róbert Ómar hafi fallið 3,2 metra milli áhorfendapalla í Smáranum á Póst-móti Breiðabliks í körfubolta á laugardaginn.

Betur fór en á horfðist og Róbert gekk sjálfur undan stúkunni ómeiddur. „Það er kraftaverk að barnið sé óhult,“ sagði Helga Þórey.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×