Enski boltinn

David De Gea verður ekki í marki Manchester United á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David De Gea.
David De Gea. Vísir/Getty
Spænski markvörðurinn David De Gea mun ekki taka þátt í fyrsta leik Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, staðfesti þetta á blaðamannafundi fyrir leikinn og talaði um að Spánverjinn væri ekki í andlegu ástandi til að spila.

David De Gea hefur verið orðaður við Real Madrid í allt sumar en hingað til hefur ekki litið úr fyrir að Manchester United og Real Madrid væru líkleg til að ná saman um kaupverð.

„David mun ekki spila leikinn þannig að ég hef engar áhyggjur af því hvort hann sé leikfær eða ekki. Ég hugsa meira um manninn sjálfan en leikmanninn og ég tel að hann ráði ekki við það að spila þennan leik," sagði Louis van Gaal.

David De Gea er 24 ára gamall Spánverji og hefur verið aðalmarkvörður Manchester United undanfarin fjögur tímabil. Hann kom frá Atlético Madrid sumarið 2011 en hann er fæddur og uppalinn í Madrid.

Manchester United hefur áhuga á leikmönnum Real Madrid eins og þeim Gareth Bale og Sergio Ramos en hvort þeir verði hluti af mögulegri sölu þykir ólíklegt.

Manchester United mætir Tottenham í opnunarleik tímabilsins í hádeginu á morgun en leikurinn fer á Old Trafford og hefst klukkan 11.45 að íslenskum tíma.

Líklegast er að Sergio Romero, nýr leikmaður liðsins, standi í markinu á morgun. Romero kom í sumar til United frá Sampdoria en Louis van Gaal þekkir vel til hans síðan að hann þjálfaði hann hjá AZ Alkmaar. Þetta yrði þá fyrsti leikur Romero fyrir Manchester United.

Victor Valdes verður í það minnsta ekki í markinu eftir að upp úr sauð í samskiptum hans og knattspyrnustjórans Louis van Gaal. Valdes er væntanlega á leiðinni frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×