Innlent

Fá sérfræðinga frá Noregi og Svíþjóð

fanney birna jónsdóttir skrifar
Þeir Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða samfanga sinna á Litla-Hrauni.
Þeir Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða samfanga sinna á Litla-Hrauni. Fréttablaðið/GVA
Tveir sérfræðingar verða á föstudag fengnir til að fara yfir mat á krufningarskýrslu í máli Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar sem gefið er að sök hafa valdið dauða samfanga síns á Litla-Hrauni.

Sérfræðingarnir tveir verða dómkvaddir í Héraðsdómi Suðurlands, en báðir afplána þeir Annþór og Börkur dóma fyrir önnur mál á Litla-Hrauni. Verjendur Annþórs og Barkar fóru fram á að erlendir sérfræðingar yrðu fengnir til að fara yfir mat Þóru Steffensen réttarmeinafræðings á krufningarskýrslu og tveggja prófessora í sálfræði um atferli fanganna á upptöku úr öryggismyndavélum.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur helst staðið styr um dómkvaðningu réttarmeinafræðinga til að yfirmeta krufninguna og þar með dánarorsökina.

Hæstiréttur átaldi í maí 2014 þann drátt sem orðið hefur á þessari dómkvaðningu.

Erfitt hefur reynst að finna einstaklinga sem eru hæfir til að taka að sér matið en heimildir Fréttablaðsins herma að um verði að ræða annars vegar sænskan og hins vegar norskan fræðimann.

Þeir Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa þann 17. maí árið 2012 veist í sameiningu með ofbeldi að fanga á Litla-Hrauni og veitt honum högg á kvið, með þeim afleiðingum að rof kom á milta og bláæð frá miltanu sem leiddi til dauða hans skömmu síðar af völdum innvortis blæðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×