Innlent

"Getum ekki talað við gamla fólkið“

Linda Blöndal skrifar
Starfsfólk á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð í Reykjavík telur öryggi heimilisfólksins stefnt í hættu náist ekki að ráða hjúkrunarfræðinga á heimilið en þrír hætta stöfum um þessar mundir. Tveir hjúkrunarfræðingar verða þá eftir auk deildarstjórans og forstöðumanns. Enginn hefur sótt um störfin eftir auglýsingu. 

Mikill halli

Seljahlíð glímir við mikinn rekstrarvanda en hallin var upp á 32 milljónir á síðasta ári. Hjúkrunarfræðingar á heimilinum vöktu athygli á stöðunni í bréfi sem sent var þann 5.desember í fyrra meðal annars til Eftirlits-og gæðasviðs Landlæknis, Velferðarsviðs borgarinnar og borgarstjóra. Engin viðbrögð hafa borist við því. Hjúkrunarfræðingarnir munu hittast á morgun á fundi til að ræða þá grafalvarlegu stöðu sem nú er orðin, eins einn þeirra kaus að orða það. 

Sinna báðum deildum 

Reykjavíkurborg rekur Seljahlíð, hjúkrunardeild fyrir tuttugu aldraða heimilismenn og svo þjónustudeild fyrir rúmlega fimmtíu í viðbót, alls rúmlega sjötíu heimilismenn. Deildirnar tvær eru ekki aðskildar í húsinu og sinna starfsmenn hjúkrunardeildar sjálfkrafa líka þeim sem eru á þjónustudeildinni. Þar er gert ráð fyrir yngri og frískari heimilismönnum en sú er ekki raunin. Á heimilinu starfar einnig sjúkraþjálfi og tuttugu ófaglærðir starfsmenn. 

Sjúkraliðar hætta 

Barbara Helgason, trúnaðarmaður starfsmanna í Eflingu, hefur starfað í Seljahlíð í fimm ár og segir starfsfólkið allt af vilja gert en vinnuálagið allt of mikið. „Það er mikil vinna, við vinnum stundum fjórtán til sextán tíma á dag,“ sagði Barbara í fréttum Stövðar tvö í kvöld. „Tveir hafa hætt og farið að vinna annars staðar og það kemur enginn nýr í staðinn,“ sagði hún. 

Getum baðað þau einu sinni í viku 

Oft vanti þá starfsfólk á vaktir vegna veikinda og í dag hafi til dæmis vantað tvo á vaktina, segir Barbara. „Ég er búin að tala við Eflingu og borgina og hef hringt í borgarstjóra og Landlækni en þeir svara okkur ekki. Þeir gera ekki neitt,“ segir Barbara. Heimilisfólk er oft afskiptalaust vegna manneklu, segir hún en tíu ófaglærðir starfsmenn eru á dagvaktinni fyrir allt húsið að hennar sögn. Erfitt sé að hugsa vel um gamla fólkið með svo fátt starfsfólk.

„Við getum það ekki. Við verðum að sleppa baði, getum baðað þau einu sinni í viku. Það er mjög mikið af róandi lyfjum. Þetta fólk getur ekki lifað svona. Gamla fólkið er líka svo óskaplega spennt. Við getum ekki talað við það, menn bara flýta sér,“ segir Barbara og bætir við: „Ég myndi ekki vilja fara á svona heimili.“ 


Tengdar fréttir

Umönnun aldraðra: „Komið betur fram við hunda en okkur.“

Aðstandendur segja að umönnun eldra fólks á hjúkrunarheimilum sé fyrir neðan allar hellur. Mannekla og fjárskortur kemur niður á samskiptum við vistmenn. Margir upplifa sig afskipta. Rætt er við fagaðila um úrlausn mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×