Innlent

Sjávarútvegsráðherra kallar eftir pólitískri samstöðu um breytingar

Heimir Már Pétursson skrifar
Sjávarútvegsráðherra bindur enn vonir við víðtæka pólitíska sátt um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða en segir ágreining vera um skýrleika eignarhalds þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni og tengingu þess við veiðiréttinn. Það komi væntanlega í ljós fyrir páska hvort frumvarp um heildarendurskoðun laganna verði lagt fram á vorþingi.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra leggur áherslu á að sem víðtækust sátt takist um stjórn fiskveiða, þótt frumkvæðisskyldan í málinu liggi hjá honum. En til að frumvarp frá ríkisstjórn geti orðið að veruleika þarf að nást sátt um málið við ríkisstjórnarborðið.

Sigurður Ingi vísar til stjórnarsáttmálans í þessum efnum þar sem finna megi ákvæði sem byggi á vinnu sáttanefndar sem síðasta ríkisstjórn kom á laggirnar. Sú vinna hafi gengið vel í samskiptum við hagsmunaaðila atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar. En að lokum þurfi stjórnmálaöflin að afgreiða málið.

„En stjórnmálaöflin í landinu eins og ég hef orðað það þurfa þá að vera tilbúin að axla þá ábyrgð og hafa þann kjark að stíga yfir þröskuldinn og vilja frekar víðtæka sátt heldur en áframhaldandi riflildi um eina mikilvægust atvinnugrein landsins,“ segir Sigurður Ingi.

Það ætti að koma í ljós fyrir páska hvort frumvarp um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða líti dagsins ljós á vorþingi.

Innan Sjálfstæðisflokksins eru margir sem vilja litlar sem engar breytingar á kerfinu aðrar en að skapa festu um álagningu veiðigjald, sem hingað til hafa verið ákvörðuð frá ári til árs. En talað hefur verið um nýtingarsamninga til allt að 23 ára á auðlindinni, uppsagnarákvæði hvað þá samninga varðar og að viðskipti með veiðiheimildir fari allar fram á markaði.

Sigurður Ingi iðurkennir að frumkvæðið liggi hjá ríkisstjórn hverju sinni en hann bindi enn vonir við víðtæka pólitíska sátt sem næstum hafi tekist árið 2012. Ásteitingarsteinninn í málinu varði fyrst og fremst skýrleika á eignarhaldi þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni ásamt tengingunni við veiðiréttinn.

„Aðrir hlutir sem hafa verið nefndir eru minniháttar og  meira og minna eru menn sammála um útfærslurnar á stjórnarheimilunu og ég vonast auðvitað til að við leysum það. En ég kalla líka eftir því að menn séu tilbúnir að stíga út úr hinum pólitísku skotgröfum og vera þá tilbúnir til að leysa þ etta þvert á flokka,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×