Innlent

Stuðningur við sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga

Heimir Már Pétursson skrifar
Skrifað var undir samninga í dag um sóknaráætlun fyrir landshlutana með það að markmiði að styrkja menningar- og nýsköpunarstarf á landsbyggðinni. Talskona landshlutasamtakanna segir að með þessu samstarfi færist verkefni frá ríki til sveitarfélaga en vissulega mætti setja meiri fjármuni í verkefnið.

Allir fulltrúar landshlutanna sem komu saman í Ráðherrabústaðnum í dag ásamt atvinnuvegaráðherra og menntamálaráðherra, eru sammála um að fyrri sóknaráætlanir landshlutanna, sem gerðar voru til skemmri tíma, hafi skilað miklum árangri. Miklar vonir eru því bundnar við þá samninga sem undirritaðir voru í dag.

Fulltrúar sex landshlutasamtaka undirrituðu samkomulag um sóknaráætlun en fulltrúar Norðurlands Eystra og Austurlands áttu ekki heimangengt vegna veðurs. Ríkissjóður leggur verkefninu til 101 milljón en að auki færast framlög úr öðrum eldri áætlunum fyrir landsbyggðina inn í verkefnin. Þau byggja á áætlanagerð um menningarstarfsemi og nýsköpun að frumkvæði heimamanna í samstarfi við öll ráðuneyti.

Friðbjörg Matthíasdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfjarða, hafði orð fyrir landshlutunum við undirritun sóknaráætlananna í dag.

Heldur þú að þetta muni auka fjölbreytni á landsbyggðinni og fjölga atvinnutækifærum?

„Það er í raun og veru sett í okkar hendur að vinna úr þeim tækifærum sem við fáum,“ segir Friðbjörg. Landshlutarnir séu vel undirbúnir af fyrri átlunum til að virkja þennan samstarfsvettvang.

Heildarframlög til landshlutanna verða um 600 miljónir króna á þessu ári.

„Ég verð að segja eins og er að það er mikilvægt ákvæði í samningnum sem leggur skyldur á herðar beggja aðila að vinna að því á samningstímabilinu að auka fjármunina,“ segir Friðbjörg.

„Ég er mjög ánægður hvað menninguna varðar. Ég held að þetta sé mjög spennandi tilraun. En aðalatriðið er þetta að virkja sem best heimamenn þannig að þeir taki ákvarðanir,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.

Atvinnuvegaráðherra gerir sér vonir um að sóknaráætlanirnar fjölgi atvinnutækifærum á landsbyggðinni. En það var nefnt við undirritunina í dag að gjarnan mætti tengja fleiri áætlanir stjórnvalda beint við landshlutasamtökin og færa þannig ákvaðanatökuna í fleiri málum til sveitarfélaganna.

„Klárlega eru sóknaráætlannirnar sem verða unnar einn liður í því sem við erum að fara að gera í hverjum landshluta. Byggðaáætlunin hlýtur að byggja á því, síðan samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, menntaáætlun, áætlun í heilbrigðismálum og svo framvegis. Þær eiga síðan að leggjast hver ofan á aðra og kannski ekki hvað síst landsskipulagsstefnan sem er að koma fram í fyrsta skipti á vorþinginu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson atvinnuvegaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×