Innlent

Tjá sig ekki um ástæður þess að lögreglumaðurinn var færður til í starfi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir segist ekki geta tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir segist ekki geta tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna. Vísir/Ernir
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, ætlar ekki að tjá sig um ástæður þess að starfsmanni hjá embættinu var veitt leyfi frá störfum og svo færður til í starfi fyrr á árinu.

Ástæðan er sú, eins og Vísir fjallaði um í morgun, að grunur leikur á um að viðkomandi starfsmaður hafi lekið upplýsingum um mál sem voru til skoðunar hjá lögreglu. Viðkomandi starfsmaður hafði meðal annars aðgang að upplýsingum sem gátu haft áhrif á umfangsmikil fíkniefnamál.

Aldís Hilmarsdóttir og Friðrik Smári Björgvinsson vildu hvorugt tjá sig um málið í morgun og vísuðu á Sigríði Björk.Vísir
Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglu, og Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vildu hvorugt tjá sig um málið í samtali við Vísi í morgun.

Töldu þau réttast að Sigríður Björk svaraði fyrir málið þar sem hún væri lögreglustjórinn. 

Sigríður Björk var vant við látin þegar blaðamaður heyrði í henni á ellefta tímanum í morgun en boðaði svör í framhaldinu. Var óskað eftir skriflegri fyrirspurn sem blaðamaður sendi um hæl. 

Maðurinn sem færður var til í starfi er lögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.Vísir/GVA
Margir mánuðir liðnir frá breytingum

Í skriflegu og knöppu svari Gunnars Rúnars Sveinbjörnssonar, kynningarfulltrúa LRH, fyrir hönd Sigríðar Bjarkar sem barst fréttastofu á þriðja tímanum segir að ekki sé hægt að veita neinar upplýsingar um málefni einstakra starfsmanna.

Þá beri að hafa í huga að embætti ríkissaksóknara fari með mál „ef um er að ræða ætlað refsivert brot lögreglumanns við framkvæmd starfa hans.“

Ekkert kemur fram í svari lögreglu hvort málinu hafi verið vísað til ríkissaksóknara til að fá óháða rannsókn á meintum leka.

Heimildir Vísis herma að töluverður tími sé liðinn, nokkrir mánuðir, síðan starfsmaðurinn var færður til innan lögreglu vegna þráláts orðróms um leka. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×