Innlent

Vinnulagi breytt á neyðarmóttökunni

Snærós Sindradóttir skrifar
Eyrún Jónsdóttir, verkefnastjóri Neyðarmóttöku
Eyrún Jónsdóttir, verkefnastjóri Neyðarmóttöku
Ákveðið hefur verið að lögmaður verði alltaf kallaður til þegar þolandi nauðgunar leitar til Neyðarmóttöku beint af vettvangi. Þetta er liður í breyttum vinnubrögðum varðandi kynferðisofbeldi.

Eyrún Jónsdóttir, verkefnastjóri Neyðarmóttöku, segir að ekki sé beinlínis um nýmæli að ræða heldur frekar skerpingu á ákveðnu vinnulagi. Brotaþolum hefur alltaf staðið til boða að fá réttargæslumann á svæðið sér að kostnaðarlausu.

„En við gerum þetta oftar núna vegna breyttra vinnubragða hjá lögreglunni. Það er oftar verið að kalla út rannsakara hjá þeim og lögreglan tengist oftar þessum málum á fyrri stigum,“ segir Eyrún.

Lögregla hefur búnað, hljóð og myndupptöku, til að taka frumskýrslu af þolendum á neyðarmóttöku.

Kostnaður vegna útkalls lögmanna er greiddur af sjóðum Neyðarmóttökunnar. Eyrún segir að hingað til hafi það ekki gerst að sjóðirnir tæmist. Hún segist hafa trú á því að ef slík staða kæmi upp yrði það leyst með auknum fjárveitingum.

Gunnhildur Pétursdóttir fer fyrir réttargæsluteymi Neyðarmóttökunnar, en í því eru sjö lögmenn. Hún segir mikilvægt að réttargæslumaður sé kallaður til strax enda fylgi hann þolanda í gegnum allt málið. Þá sé mikilvægt að upplýsa þolendur um hvernig málin gangi fyrir sig í kerfinu og að vera til staðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×