Innlent

Hálfs árs bið eftir niðurstöðu kærunefndar útlendingamála

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Telati-fjölskyldan gæti verið boðuð fyrr til kærunefndar útlendingamála en nefndin tekur tillit til stöðu barnafjölskyldna.
Telati-fjölskyldan gæti verið boðuð fyrr til kærunefndar útlendingamála en nefndin tekur tillit til stöðu barnafjölskyldna. Vísir/GVA
„Ég get því miður ekki gefið upplýsingar um einstök mál. Mér sýnist að eins og er sé um 5-6 mánaða bið eftir niðurstöðu á hælismálum hjá okkur frá því að gögn um kæruna berast okkur,“ segir Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður kærunefndar útlendingamál.

„Við reynum hins vegar að taka fjölskyldur framar í röðina þar sem við lítum svo á að fjölskyldur séu í viðkvæmari stöðu en umsækjendur um alþjóðlega vernd almennt.“

Hjörtur segir nefndina skoða öll gögn sem Útlendingastofnun byggði sína niðurstöðu á og hún afli auk þess gagna sjálf.

„Þau gögn sem nefndin aflar eru aðallega frá mannréttindasamtökum og samtökum sem vinna að málefnum hælisleitenda og flóttamanna. Þá skoðum við skýrslur sem stjórnvöld í öðrum löndum hafa unnið um stöðu hælisleitenda og rétt þeirra til alþjóðlegrar verndar. Við höfum einnig leitað talsvert til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna en sú stofnun hefur verið mjög hjálpleg við að finna upplýsingar um aðstæður í löndum þar sem þróunin er mjög hröð,“ segir Hjörtur.

Hælisleitendur og talsmenn þeirra hafa tækifæri til að koma fyrir nefndina og skýra mál sitt betur. „Og geta við það tækifæri útskýrt atriði sem ekki hafa komið fram áður og skýrt betur atriði sem kunna að vera óljós í greinargerðum þeirra eða öðrum skriflegum gögnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×