Innlent

Eigandi sumarhúss segir Orkuveituna sýna vígtennurnar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Eitt frístundahúsanna við Elliðavatn sem Orkuveitan vill að hverfi.
Eitt frístundahúsanna við Elliðavatn sem Orkuveitan vill að hverfi. Fréttablaðið/GVA
„Orkuveitan er núna loksins að sýna vígtennurnar til að þjarma að okkur og neyða burt,“ segir Garðar Briem, einn eigenda frístundahúsa í landi Orkuveitu Reykjavíkur við Elliðavatn.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu 24. september vill Orkuveitan að sumarhús á 26 leigulóðum á gömlu Elliðavatnsjörðinni hverfi þaðan vegna vatnsverndarsjónarmiða.

Orkuveitan bendir á að samið hafi verið um áframhaldandi leigu við 21 sumarhúsaeiganda á árinu 2004 til sjö ára með þeim skilmálum að eigendurnir myndu að leigutímanum liðnum fjarlægja húsin. Samningarnir voru framlengdir um eitt ár árið 2011 en eru síðan fallnir úr gildi.

Húseigendurnir telja leigusamninga enn í gildi og kærðu Orkuveituna til kærunefndar húsamála sem vísaði kærunni frá.  „Við viljum ekki og ætlum ekki að ganga fram með offorsi en okkar framtíðarsýn í vatnsvernd er skýr og henni munum við fylgja,“ sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í Fréttablaðinu 24. september.

Garðar Briem segir húseigendurna ekkert hafa heyrt frá Orkuveitunni að undanförnu. Lögmaður húseigendanna sé nú með mál þeirra á sínu borði og það sé á viðkvæmu stigi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×