Innlent

Íslensk kona ákærð fyrir tilraun til manndráps í Ungverjalandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Háskólinn í Debrecen. Fjölmargir Íslendingar hafa stundað nám í Debrecen undanfarin ár.
Háskólinn í Debrecen. Fjölmargir Íslendingar hafa stundað nám í Debrecen undanfarin ár. Vísir/Getty
Íslensk kona bíður nú dóms í Ungverjalandi fyrir tilraun til manndráps. Er hún sökuð um að hafa byrlað vinkonu sinni svefnlyf og barið hana tvívegis í höfuðið með hamri.

Greint var frá málinu í kvöldfréttum RÚV en atvikið átti sér stað sumarið 2012. Í ákæru á hendur konunni, sem stundaði nám í læknisfræði við Háskólann í Debrecen er atvikið átt sér stað, segir að konan hafi boðið vinkonu sinni heim til sín en komið svefnlyfjum fyrir í mat hennar. Vinkonan, sem er frá Nígeríu, sofnaði fljótlega og þegar hún vaknaði um morguninn hafi íslenska konan barið hana tvisvar í höfuðið með hamri.

Komst hún við illan leik á spítala þar sem hún fékk aðhlynningu vegna áverka á höfði. Í kvöldfréttum RÚV kom fram að íslenskur verjandi konunnar segir að frásögn íslensku konunnar af málsatvikum sé ekki sambærileg við það sem kemur fram í ákærunni. Segir hann að sönnunargögn hafi gufað upp og að málsmeðferð hafi verið undarleg.

Málið verður tekið fyrir í nóvember en samkvæmt heimildum Vísis er hin ákærða búsett á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×