Innlent

Hrinti ástríðuverkefni í framkvæmd: Hundrað nemendur í unglingadeild fá markþjálfun

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Unglingar gætu hagnast mikið á markþjálfun að sögn Ástu enda eru síðustu árin í grunnskóla mikil mótunarár.
Unglingar gætu hagnast mikið á markþjálfun að sögn Ástu enda eru síðustu árin í grunnskóla mikil mótunarár. Vísir/Getty
„Markþjálfun snýst um það að laða fram það besta í hverjum einstaklingi. Þessi setning skaut mig beint í hjartað og markþjálfun gerði það svo sannarlega fyrir mig,“ segir Ásta Guðrún Guðbrandsdóttir en hún er útlærður markþjálfi og leiðir tilraunaverkefni sem snýst um að bjóða nemendum í 8 – 10. bekk í grunnskólum á Suðurnesjunum upp á markþjálfun.

Ásta starfaði sem ferðaráðgjafi í 25 ár. „Þegar ég hætti fannst mér sem allar dyr væru lokaðar og fór því í markþjálfun. Svo fór ég í námið, kynntist þessari aðferðafræði og það opnaðist allt fyrir mér, heimurinn opnaðist.

Ásta kynntist markþjálfun og líf hennar umbreyttist.Mynd/Aðsend
Ég hugsaði með mér: Það verða fleiri að fá að vita af þessu, fá þetta verkfæri í hendurnar.“ Hún á sjálf tólf ára dreng og hugsaði með sér hversu mikið skólaumhverfið og kennarar gætu hagnast á að fá markþjálfun sem kennslutæki.

Nemendur í framhaldsskóla hættu vegna einmanaleika


Hún bendir á hugsanir nemenda í unglingadeild grunnskóla séu á fleygiferð. „Þetta er þessi tími þar sem það er svakalega mikið að gerast hjá þeim. Ekkert endilega pælingar varðandi framtíðina heldur meira verið að spyrja sig: Hvernig á ég að vera svo ég virki í því umhverfi sem ég er í?“

Hún segir það mikilvægt verkefni að vinna að því að sjálfsmynd þessara barna verði sterk. Samkvæmt norskri úttekt hafi unglingar í menntaskóla hætt í skólanum vegna einmanaleika. „Maður fær bara sting í hjartað við að heyra það. Markþjálfun miðar að því að fá fólk til að átta sig á eigin getu og möguleikum. Svona „Ég er nóg.“ Það er setning sem ég elska út af lífinu.“

Hópurinn brennur fyrir markþjálfun og er spenntur að láta gott af sér leiða.Mynd/Aðsend
„Ég finn það með minn tólf ára dreng að það eru sífelldir barningar, verið að reyna að standa fyrir sínu sjálfstæði, vera metinn fyrir það sem maður er en á sama tíma að leita í einhverjar staðalímyndir.“

Kynna þarf menntakerfið fyrir markþjálfun

Ásta ákvað að hrinda ástríðuverkefni sínu, kynna fleiri fyrir markþjálfun í framkvæmd. „Ég fór og kallaði saman markþjálfa sem voru á sama máli og ég hvað varðar menntakerfið og við vorum öll sammála um við við yrðum einhvern veginn að kynna menntakerfið fyrir markþjálfun.“

Úr varð tæplega fimmtíu manna hópur markþjálfa sem kallar sig Markþjálfahjartað. Nokkrir úr hópnum ákváðu að taka skrefið nú strax í haust. „Það er ekki nóg að tala um þetta, maður þarf að gera eitthvað. Við ákváðum að taka hluta af Íslandi, taka eitthvað afmarkað svæði og þar sem við vorum með þrjá markþjálfa á Reykjanesinu í þessum hópi ákváðum við að taka Suðurnesin.“

Þegar Ásta hafði samband við skóla kom það henni skemmtilega á óvart hversu jákvæðir stjórnendur væru fyrir því að taka þátt í verkefninu. Fimm skólar eru með í verkefninu að þessu sinni: Akurskóli, Holtaskóli, Stóru-Vogaskóli ,Grunnskólinn í Sandgerði og Myllubakkaskóli. Raunar var það svo að fleiri skólar báðu um að fá að vera með en Ásta hafði ekki fleiri markþjálfa á sínum snærum. Tveir fara í hvern skóla og hver tekur fimm nemendur í markþjálfun.

Norsk rannsókn leiddi í ljós að einn þáttur í brottfalli nemenda úr framhaldsskóla var að þeir fundu fyrir einmanaleika.Vísir/Getty


Hefur engan áhuga á að græða peninga

Verkefnið er tilraunaverkefni og verður spennandi að sjá hvort markþjálfun sé eins fyrir þennan aldur og fyrir fullorðið fólk. Spurningalistar verða lagðir fyrir nemendur, foreldra og kennara áður en markþjálfunin hefst. Svo verða nemendur teknir í fimm einstaklingsviðtöl og gildir fullkominn trúnaður um þau samskipti eins og á við alltaf þegar um markþjálfun er að ræða. Eftir skiptin fimm verða spurningalistarnir aftur lagðir fyrir og von er á niðurstöðum um miðjan nóvember.

„Þetta er sjálfboðaliðavinna, við erum að gefa vinnuna okkar. Ég sjálf er ekki upptekin af því að græða peninga, það er svo langt frá mínum markmiðum. Ég vil skilja eitthvað eftir í þjóðfélaginu. Svo sjáum við líka að þetta er ofboðslega góð reynsla fyrir okkur enda snýst markþjálfun endalaust um að safna sér reynslu og tímum. Svo hef ég með þessu verkefni þegar komið orðinu markþjálfun inn í umræðuna, allavega á Suðurnesjum. Þegar ég byrjaði í þessu námi var sífellt verið að spyrja mig: „Markþjálfun, hvað er það? Ertu að þjálfa markmenn?“ Ég vil koma þessu til sem flestra.“

Hvað er markþjálfun:Markþjálfun er langtímasamband sérþjálfaðs markþjálfara og marksækjanda sem byggir á gagnkvæmu...

Posted by Markþjálfahjartað on Tuesday, August 25, 2015


Hvað er markþjálfun?


Markþjálfun er langtímasamband sérþjálfaðs markþjálfara og stjórnanda sem byggir á gagnkvæmu trausti, faglegri nálgun og öflugum stuðningi við þín markmið. Markþjálfun er hlutlaus og uppbyggilegur vettvangur til þess að þekkja og nýta betur eigin styrkleika og tækifæri, kortleggja eigin væntingar og fá stuðning við að gera þína framtíðarsýn að veruleika. Markþjálfarar vinna að því að virkja sköpunargleði einstaklinga og aðstoða þá við hrinda í framkvæmd raunhæfum og árangursríkum úrræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×