Innlent

Byggingarkostnaður 170 milljónum hærri en fasteignamat

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
MYND/VÍSIR

Sveitarstjórn Skeiða -og Gnúpverjahrepps ætlar að kæra Þjóðskrá vegna ákvörðunar um fasteignamat tveggja vindmylla sem standa við Búrfell. Byggingarkostnaður var metin á þrjátíu milljónir en reyndist vera 200 milljónir. 

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en um er að ræða tvær tilraunavindmyllur sem settar voru upp í febrúar 2013. Byggingakostnaðurinn við vindmyllurnar var um 170 milljónum meiri en gert var ráð fyrir í fasteignamati. Sveitarstjórn Skeiða og Gnúpverjahrepps hefur því ákveðið að kæra ákvörðum þjóðskrár um fasteignamatið. 

„Þetta er bara eingöngu vegna þess að við ætlum að fá raunvirði á vindmyllurnar. Þetta er ekki spurningin um hvort þetta sé rétt eða rangt. Það hefur ekki verið dæmt í þessu og við viljum bara fá úrskurð fasteignamatsnefndar um hvort rétt mat sé á vindmyllunum“, segir Björgvin Skafti Bjarnason, sveitarstjóri Skeiða - og Gnúpverjahrepps.

Í rökstuðningi fyrir fasteignamati vindmyllanna telur Landsvirkjun að myllan sjálf teljist til búnaðar sem sé undanskilin fasteignamati, og því ætti aðeins 20% masturssins og steyptar undirstöður að teljast inn í eignamatið. Björgvin Skafti segir að málið verði fordæmisgefandi fyrir vindmyllur sem kunna að rísa á Íslandi, en sveitarstjórnir hafa ekki áður gert athugasemdir við röksemdir Landsvirkjunar á hvernig fasteignamati vindmyllna er háttað.

„Þetta eru nú fyrstu tvær vindmyllurnar sem eru settar í fasteignamat. Síðan eru tvær vindmyllur í Þykkvabæ sem ég er nú reyndar ekki alveg klár á hvort að sé búið að meta. En planið er að setja upp 80 vindmyllur og það verður horft til þess hvernig þessar vindmyllur eru metnar og aðrar metnar útfrá því,“ segir Björgvin Skafti Bjarnason. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×