Innlent

Taldi sig hafa skýran stuðning ríkisstjórnar vegna þvingana

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ekki fást skýr svör við því hvenær ríkisstjórnin ákvað að styðja áframhaldandi viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum. Forsetinn fundaði í dag með sendiherra Rússlands um innflutningsbann á íslensk matvæli í Rússlandi. 

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands átti í dag fund með Anton Vasiliev sendiherra Rússlands á Íslandi um innflutningsbann Rússa á íslensk matvæli. Fundurinn var haldinn að frumkvæði forsetans en að fengnu samráði við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Á fundinum var rætt um ýmsar leiðir sem gætu leitt til lausnar í ljósi þess að í báðum löndunum væri ríkur vilji til að varðveita langvarandi og gagnkvæma viðskiptahagsmuni þrátt fyrir tímabundinn ágreining ríkjanna.

Íslendingar fluttu út vörur til Rússlands í fyrra fyrir rúmlega 29 milljarða króna. Stærstur hluti upphæðarinnar er uppsjávarfiskur eins og makríll og loðna. Tjón íslenskra fyrirtækja gæti hlaupið á 10-15 milljörðum króna á ári vegna viðskiptabannsins, að sögn sérfræðinga. Ekki er hlaupið að því að finna nýja markaði fyrir makrílinn. Í raun eru slíkir rmarkaðir ekki til því fiskútflytjendur hafa leitað logandi ljósi að nýjum mörkuðum undanfarna 12 mánuði. Á þeim mörkuðum þar sem eftirspurn er eftir makríl fæst miklu lægra verð fyrir hann en í Rússlandi.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur verið sakaður um að hafa sagt ósatt þegar hann sagði einhug í ríkisstjórn um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum og að málið hafi verið samþykkt í ríkisstjórn. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var spurður um þetta í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær og sagði hann að utanríkisráðherra hefði gert „grein fyrir málinu“ fyrir bæði ríkisstjórn og utanríkismálanefnd. 

Orðrétt sagði Bjarni: 

Sp: „Var þessi ákvörðun tekin á ríkisstjórnarfundi?

BB: Hvaða ákvörðun? 

Sp: Ákvörðun að fara á þennan lista?

BB: Það er ekki í sjálfu sér neinn listi sem menn tóku ákvörðun um að fara á. En utanríkisráðherra gerði grein fyrir því á sínum tíma að Íslendingar myndu taka undir viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins fyrir ríkisstjórn og fyrir utanríkismálanefnd.“

Ljóst er að upphaflegur stuðningur við viðskiptaþvinganir ESB og Bandaríkjanna gagnvart Rússum var ræddur í ríkisstjórn sumarið 2014. Í október síðastliðnum kom málið aftur til umræðu og hefur fréttastofan fengið staðfest að svo sé. Hins vegar sér þess ekki stað í dagskrá ríkisstjórnarinnar í október. Ekkert er minnst á málið í dagskrártilkynningum frá október og því virðist það hafa verið rætt utan dagskrár.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra taldi sig hafa skýran stuðning í ríkisstjórninni fyrir stuðningi Íslands við upphaflegum viðskiptaþvingunum ESB og Bandaríkjanna gagnvart Rússum, tæknilegri úfærslu slíkra þvingana og framlengingu á stuðningi Íslands við þær. Ljóst er að engin mótmæli komu fram á ríkisstjórnarfundi þegar málið var kynnt og því má draga þá ályktun að ráðherrann hafi litið svo á að einhugur væri um stuðning við aðgerðirnar í ríkisstjórn. 

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lýst efasemdum um stuðning við viðskiptaþvinganir ESB og Bandaríkjanna gagnvart Rússum. Gagnaðgerðir Rússa bitna verst á Íslendingum af þeim löndum sem bættust við þau ríki sem sæta innflutningsbanni í Rússlandi. Ráðherrann lýsti þessu viðhorfi síðast í viðtali við Stöð 2 á sunnudag. Hins vegar hefur engin ákvörðun verið tekin um að falla frá stuðningnum. Það þykir pólitískt erfitt fyrir íslensk stjórnvöld að draga stuðning til baka úr því Ísland er þegar komið á lista yfir ríki sem styðja viðskiptaþvinganirnar. Sérstaklega í ljósi þess að ríki Atlantshafsbandalagsins hafa ályktað um málið og Ísland er stofnaðili bandalagsins. 


Tengdar fréttir

Gunnar Bragi segir viðskiptabann Rússa vonbrigði

„Við höfum verið í stöðugum samskiptum við rússneska embættismenn og stjórnvöld, reynt að fylgjast með þessu en fengum engar upplýsingar um þetta,“ segir utanríkisráðherra.

Þvinganir gætu komið Íslandi verst

Rússland hefur sett viðskiptabann á Ísland. Stjórnvöld vinna í að finna út hversu víðtækt bannið er. Fjármálaráðherra útilokar ekki aðgerðir til stuðnings útflutningsfyrirtækjum og segir að það megi hafa efasemdir um það hvort viðskiptaþvinganir skili sér.

Rússar setja viðskiptabann á Íslendinga

Rússland hefur ákveðið að setja viðskiptabann á matvæli frá fimm ríkjum til viðbótar við það bann sem þegar hafði verið sett á ríki Evrópusambandsins. Löndin eru Albanía, Svartfjallaland Liechtenstein og Úkraína.

Hafa ekki óskað eftir formlegu liðsinni forsetans

Ríkisstjórnin hefur ekki óskað eftir aðstoð forseta Íslands vegna viðskiptabanns Rússa. Sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum segir að það yrði litið alvarlegum augum af samstarfsaðilum Íslands í Atlantshafsbandalaginu ef Íslendingar myndu semja einhliða við Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×