Innlent

Hafa ekki óskað eftir formlegu liðsinni forsetans

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ríkisstjórnin hefur ekki óskað eftir aðstoð forseta Íslands vegna viðskiptabanns Rússa. Sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum segir að það yrði litið alvarlegum augum af samstarfsaðilum Íslands í Atlantshafsbandalaginu ef Íslendingar myndu semja einhliða við Rússa.

Þau skilaboð sem íslensk stjórnvöld hafa fengið frá Moskvu vegna viðskiptabannsins eru nær öll á sama veg, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Rússnesk stjórnvöld eigi erfitt með að sjá í gegnum fingur sér varðandi innflutning á íslenskum matvælum til Rússlands nema Ísland falli frá stuðningi við þvingunaraðgerðir ESB ríkja og vesturveldanna gagnvart Rússum.

Sem kunnugt er bættist Ísland á lista yfir ríki sem sæta viðskiptabanni hjá Rússum í síðustu viku en auk Íslands bættust við Albanía, Svartfjallaland, Liechtenstein og Úkraína. Þessi ríki styðja öll viðskiptaþvinganir ESB og Bandaríkjanna gagnvart Rússum.

Jón Ormur Halldórsson
Telur þú raunhæft í ljósi þess að Ísland er stofnaðili Atlantshafsbandalagsins fyrir íslensk stjórnvöld að fara í einhverja samninga við stjórnvöld í Moskvu til þess að aflétta þessu banni? „Íslendingar reyna alltaf, eins og allir gera, að huga að sínum hagsmunum og finna leiðir til þess gæta þeirra sem allra best. Það væri hins vegar ákaflega illa séð ef Íslendingar færu að gera einhverja sérsamninga við Rússland og það yrði mjög eftir því tekið. Ýmis konar stjórnmálahreyfingar í Evrópu myndu bregðast við því með þeim hætti að benda á að þetta og gera slíkt hið sama. Það er nákvæmlega þetta sem Pútín myndi gjarnan vilja sjá, að veikja þessa samstöðu sem þó tókst að ná eftir innrás Rússa í Úkraínu,“ segir Jón Ormur Halldórsson sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum.

Baldur Þórhallsson.
„Það er alveg sjálfsagt að íslensk stjórnvöld reyni að fá þau rússnesku að hætta við þessar viðskiptaþvinganir og halda talsambandi við Moskvu. Á sama tíma er hins vegar mjög mikilvægt fyrir Ísland, sem er mjög lítið ríki, að bindast nánum trúnaðarböndum við önnur lýðræðisríki í Vestur-Evrópu og taka höndum saman með þeim og reyna í sameiningu að eiga við rússneska björninn. Það verður að hafa í huga að aðgerðir Rússlands hafa leitt til þeirrar stöðu að friði í Evrópu hefur ekki verið stefnt í jafn mikla hættu frá síðari heimsstyrjöld. Lýðræðisríkin í Evrópu gátu ekki setið aðgerðalaus hjá. (...) Sérstaklega held ég að þetta skipti máli vegna þess hversu fámenn við erum og þeirrar staðreyndar að við getum hvorki varið landið né landhelgina,“ segir Baldur Þórhallsson en hann vísar þar til veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

Líklega enginn Íslendingur þekkir jafn vel til stjórnvalda í Moskvu og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands. Að sögn aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra hefur engin formleg ósk farið til forsetans um liðsinni í málinu enda er ekki hefð fyrir slíku. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Ólafur Ragnar áttu þó fund á fimmtudag á Bessastöðum og var þetta mál rætt þar.

Fréttastofan óskaði eftir viðtali við forsetann vegna málsins og beindi til hans eftirfarandi spurningum: 

a) Hefur verið leitað til þín vegna málsins?

b) Hefur þú tök á að aðstoða við að verja íslenska hagsmuni vegna viðskiptabannsins?

c) Treystir þú þér til að meta, sem fyrrverandi fræðimaður í stjórnmálafræði og sérfræðingur um geopólitík, hvað það myndi þýða ef íslensk stjórnvöld færu þess á leit við Rússa að þeir endurskoðuðu bann á íslensk matvæli og eftir atvikum myndu draga til baka stuðning við viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum í ljósi þess hversu mikið tjón gagnaðgerðir Rússa hafa fyrir íslensk fyrirtæki?

d) Er ekki fýsilegt fyrir íslensk stjórnvöld að semja beint við Rússa um tilslakanir eða eftir atvikum draga stuðning við viðskiptaþvinganir gagnvart þeim til baka, með vitneskju ESB-ríkjanna, í ljósi þess hversu sérstaks eðlis (sui generis) málið er fyrir Ísland? Eins og fjármála- og efnahagsráðherra benti á í fréttum í gær snýst þetta aðallega um frystingu eigna Rússa og viðskiptabann með vopn. Hvorugt snertir Ísland á nokkurn hátt.

Þau svör fengust frá skrifstofu forsetans að hann myndi ekki veita viðtöl um málið að svö stöddu. 


Tengdar fréttir

SFS: Slæm tíðindi fyrir þjóðina alla

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hefur áhyggjur af stöðu íslenskra sjávarútvegisfyrirtækja í kjölfar viðskiptabanns Rússa.

Rússar setja viðskiptabann á Íslendinga

Rússland hefur ákveðið að setja viðskiptabann á matvæli frá fimm ríkjum til viðbótar við það bann sem þegar hafði verið sett á ríki Evrópusambandsins. Löndin eru Albanía, Svartfjallaland Liechtenstein og Úkraína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×