Enski boltinn

Koeman: Erfitt að þjálfa Vitesse vegna áhrifa Chelsea

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Koeman í æfingarleik gegn Feyenoord á dögunum.
Koeman í æfingarleik gegn Feyenoord á dögunum. Vísir/Getty
Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Southampton, segir að það sé erfitt fyrir þjálfara að vera í stöðu eins og Peter Bosz, knattspyrnustjóri Vitesse, en undanfarin fimm ár hefur enska úrvalsdeildarliðið Chelsea sent leikmenn í bílförmum til Vitesse á láni.

Vitesse varð fyrsta liðið sem keypt var af erlendum fjárfestum árið 2010 þegar georgíski auðkýfingurinn Merab Jordania, góðvinur Roman Abrahimovic, eiganda Chelsea, keypti Vitesse og kom fljótlega á samstarfi milli félaganna. Hafa leikmenn á borð við Nemanja Matic og Patrick van Aanholt leikið með félaginu um tíma en í ár eru fjórir leikmenn á láni hjá félaginu.

Þrátt fyrir að þessir leikmenn hafi styrkt liðið segir Koeman að það sé erfitt að það sé stöðugt skipt um leikmenn og að ekki sé hægt að tryggja að leikmenn sem leiki vel verði áfram hjá félaginu. Þeir séu líklegir til þess að snúa ekki aftur og félagið geti ekkert gert í því.

„Þetta lítur út fyrir að vera flókið fyrir þjálfarann að byrja alltaf með nýtt lið á hverju ári, þetta var ekki svona þegar ég stýrði félaginu. Þetta gerir það að verkum að það verður erfiðara að skapa stemmingu og samkennd meðal leikmannana. Allir þessir ungu strákar vilja sanna sig en á endanum vilja þeir ekki vera þarna, þeir vilja snúa aftur til Chelsea og reyna að slá í gegn. Ég gæti ekki unnið við þessar aðstæður.“

Lærisveinar Koeman í Southampton mæta fyrrum félagi hans, Vitesse, í undankeppni Evrópudeildarinnar í kvöld en flautað verður til leiks á Englandi klukkan 19:05.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×