Lífið

Disney vill Benicio Del Toro sem illmenni í áttundu stjörnustríðsmyndinni

Birgir Olgeirsson skrifar
Benicio Del Toro.
Benicio Del Toro. Vísir/Getty
Fjölmiðlar vestanhafs greina frá því að Disney hafi augastað á Benicio Del Toror fyrir áttundu stjörnustríðsmyndina sem ekki hefur fengið nafn.

Þeir sem ekkert vilja vita um söguþráð og persónur Star Wars: The Force Awakens, sjöundu stjörnustríðsmyndarinnar, er ráðlagt að láta staðar numið við lestur þessarar fréttar því í henni koma fram upplýsingar um persónur myndarinnar sem gætu spillt áhorfi þeirra sem vilja ekkert vita um söguþráð hennar áður en þeir sjá hana í kvikmyndahúsum.

Þá hafa allir fengið sína viðvörun og því óhætt að halda áfram og segja frá því að Disney vill fá Benicio Del Toro sem illmenni í áttundu stjörnustríðsmyndinni en taki hann boði fyrirtækisins bætist hann í hóp þeirra leikara sem nú þegar hafa skuldbundið sig til að leika í áttundu myndinni en það eru Daisy Ridley, John Boyega og Oscar Isaac. Rian Johnson mun leikstýra myndinni en hann er hvað þekktastur fyrir myndina Looper sem kom út árið 2012.

Þess ber að geta að Del Toro hefur ekki enn skrifað undir og hefur Joaquin Phoenix einnig verið nefndur til sögunnar.

Því er haldið fram á vef Deadline að þessar fregnir af viðræðum Del Toro við Disney þýði að eitt af illmennunum í Star Wars: The Force Awakens muni ekki snúa aftur. Um er að ræða General Hux leikinn af Domhnall Gleeson, Captain Phasma leikinn af Gwendolyn Christie og Kylo Ren leikinn af Adam Driver.

Star Wars: The Force Awakens verður frumsýnd í desember en áttunda myndin verður ekki frumsýnd fyrr en í maí árið 2017.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×