Fótbolti

Suður-Kóreumaður ætlar að bjóða sig fram til forseta FIFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chung Mong-joon ræðir framboð sitt á blaðamannafundi.
Chung Mong-joon ræðir framboð sitt á blaðamannafundi. Vísir/Getty
Chung Mong-joon, fyrrum varaforseti FIFA, hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.

Sepp Blatter er ríkjandi forseti og mun stíga til hliðar á sérstöku aukaþingi FIFA sem haldið verður 26. febrúar.

Michel Platini hefur verið sterklega orðaður við embættið en Frakkinn, sem gegnir nú forsetaembætti Knattspyrnusambands Evrópu, hefur ekki staðfest að hann muni gefa kost á sér.

Chung segir að nýr leiðtogi þurfi að koma utan Evrópu til að ferskir vindar blási um sambandið. Hann telur að spilling innan FIFA hafi ágerst enn frekar eftir að hann missti stöðu sína sem varaforseti árið 2011.

„Þetta verður ekki auðvelt en ég get náð árangri ef ég legg mig fram. Ég áætla að tilkynna formlega um framboð mitt í næsta mánuði,“ sagði hann.

Chung Mong-joon er milljarðamæringur en hann var áður forseti knattspyrnusambands Suður-Kóreu. Hann er meirihlutaeigandi Hyundai Heavy Industries sem er eitt stærsta fyrirtæki heims.

Brasilíumaðurinn Zico og Musa Bility, forseti knattspyrnusambands Líberíu, hafa hug á því að bjóða sig fram í forsetakjörinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×