Enski boltinn

Adebayor á leiðinni til Aston Villa

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Adebayor í einum af fáu leikjum sínum fyrir Tottenham á síðasta tímabili.
Adebayor í einum af fáu leikjum sínum fyrir Tottenham á síðasta tímabili. Vísri/Getty
Aston Villa er við það að ganga frá kaupunum á Emmanuel Adebayor, leikmanni Tottenham, en honum er ætlað að fylla í skarð Christian Benteke sem gekk á dögunum til liðs við Liverpool.

Adebayor hefur undanfarnar vikur verið orðaður við Aston Villa en hann var ekki verið í náðinni hjá Mauricio Pochettino á síðasta tímabili. Voru tækifæri hans af skornum skammti en hann lék aðeins þrjá leiki fyrir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni eftir áramót.

Munaði litlu að hann færi á láni til West Ham á lokadegi félagsskiptagluggans í janúar síðastliðnum en félögin náðu ekki samkomulagi fyrir lokun gluggans.

Adebayor sást á æfingarsvæði Aston Villa í gær en hann er þessa stundina í læknisskoðun hjá félaginu. Hjá Aston Villa hittir hann fyrir fyrrum stjóra sinn hjá Tottenham, Tim Sherwood.

Undir stjórn Sherwood skoraði Adebayor 14 mörk í 24 leikjum en hann lék alls 87 leiki fyrir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 35 mörk.

Adebayor er sjötti leikmaðurinn sem Tottenham selur frá félaginu í sumar en félagið er einnig við það að selja rúmneska varnarmanninn Vlad Chiriches til Napoli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×