Fótbolti

26 ára fyrrum undrabarn samdi við þrettánda félagið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Freddu Adu hefur ákveðið að ganga til liðs við bandaríska NASL-liðið Tampa Bay Rowdies en hann spilaði síðast í Bandaríkjunum árið 2012, er hann var á mála hjá Philadelphia Union í MLS-deildinni.

„Markmið okkar er að gera Rowdies að besta knattspyrnufélagi Norður-Ameríku og þetta er skref í rétta átt,“ sagði forsetinn Bill Edwards eftir að félagið samdi við Adu.

Adu var aðeins fjórtán ára gamall þegar DC United valdi hann fyrstan í nýliðavali MLS-deildarinnar árið 2004. Um leið varð Adu yngsti atvinnumaður Bandaríkjanna í íþróttum.

Hjá Rowdies hittir hann fyrir þjálfarann Thomas Rongen sem var þjálfari U-20 liðs Bandaríkjanna á HM 2007. Þar var Adu í stóru hlutverki og skoraði meðal annars þrennu í leik gegn Póllandi.

Hann fór frá Bandaríkjunum það sama ár og samdi við portúgalska liðið Benfica. Þar fékk hann fá tækifæri og var lánaður til fjögurra félaga á jafn mörgum árum. Eftir stutta dvöl í Bandaríkjunum hefur hann síðan þá spilað í Brasilíu, Serbíu og nú síðast KuPS í Finnlandi.

Adu var aðeins þrjá mánuði í Finnlandi en undir það síðasta lék hann með varaliði félagsins í C-deildinni. Hann ákvað þá að rifta samningi sínum við finnska félagið og halda heim á leið.


Tengdar fréttir

Freddy Adu sendur heim frá Serbíu

Bandaríski knattspyrnumaðurinn spilaði ekki leik með serbneska liðinu Jagodina sem samdi við hann í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×