Enski boltinn

Manchester City keypti fyrirliða Aston Villa á átta milljónir punda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabian Delph.
Fabian Delph. Vísir/Getty
Fabian Delph, fyrrum fyrirliði Aston Villa, hefur skrifað undir fimm ára samning við Manchester City.

Manchester City kaupir miðjumanninn á átta milljónir punda en í nýjum samningi Delph við Villa frá því í janúar var klausa um að hann mætti fara fyrir þá upphæð.

„Hann er bara 25 ára gamall og á því sín bestu ár eftir," sagði Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Mancheter City, við BBC.

„Þetta er mjög góður leikmaður og ég hlakka til að fá að vinna með honum," bætti Pellegrini við.

Delph hafði áður skrópað í læknisskoðun og lýst því yfir að hann ætlaði að spila áfram fyrir Aston Villa en aðeins viku seinna gengu félagsskiptin í gegn.

Fabian Delph mun spila í treyju númer átján á næsta tímabili en það var númerið sem Frank Lampard spilaði í á síðustu leiktíð.

Fabian Delph skrifaði undir samninginn í dag eftir að hafa staðið læknisskoðun. Hann flýgur svo til móts við City-liðið sem er í æfingaferð í Ástralíu.

Fabian Delph hafði spilað með Aston Villa frá 2009 en hann kom til félagsins frá Leeds þegar hann var aðeins tvítugur.

Delph átti mikinn þátt í því að Aston Villa komst í bikarúrslitaleikinn á síðasta tímabili en hann skoraði sigurmarkið í undanúrslitaleiknum á móti Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×