Enski boltinn

Gerrard: Bekkjarsetan í Madríd gerði útslagið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Gerrard á bekknum í umræddum leik gegn Real Madrid.
Steven Gerrard á bekknum í umræddum leik gegn Real Madrid. Vísir/Getty
Steven Gerrard, fyrrum fyrirliði Liverpool, kvaddi uppeldisfélagið sitt í vor eftir að hafa verið hjá félaginu alla sína tíð.

Ákvörðun hans kom í kjölfar þess að hann fékk minna hlutverk hjá knattspyrnustjóranum Brendan Rodgers. Hann segir að ákvörðun Rodgers um að setja sig á bekkinn fyrir leik liðsins gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í nóvember hafi gert útslagið.

„Þetta var um það leyti sem ég var byrjaður að íhuga mín mál. Ég átti nokkur samtöl við Brendan þar sem hann sagðist vilja stýra því hversu marga leiki ég spila svo ég yrði ekki þreyttur,“ sagði Gerrard í viðtali við Rio Ferdinand sem birtist á BT-sjónvarpsstöðinni í dag.

„En þetta var sérstök staða vegna þess að þetta var leikur gegn Real Madrid og ég vildi spila.“

„Ég var miður mín á bekknum því ég vildi spila. Það átti þátt í því að ég tók ákvörðun um að prófa eitthvað nýtt.“

Gerrard var einnig spurður um frægt atvik er Demba Ba skoraði í 2-0 sigri Chelsea á Liverpool á þarsíðustu leiktíð. Ba komst einn í gegn eftir að Gerrard hafði runnið til en Liverpool var hársbreidd frá því að vinna titilinn þetta tímabilið.

„Ég rann til á slæmum tíma. Þetta voru grimm örlög fyrir mig. Það líður ekki sá dagur þar sem ég velti fyrir mér hvað hefði gerst ef hlutirnar hefðu atvikast á annan hátt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×