Innlent

Fékk þrjú nálgunarbönn: Lögga segir ljósmyndir til af Sunnu á svölum við heimili hans

Samúel Karl Ólason skrifar
Sunna Guðrún Eaton, betur þekkt sem Sunna Sweetness, er sökuð um að hafa brotið nálgunnarbann og hótað framkvæmdastýru Barnaverndar Reykjavíkur.
Sunna Guðrún Eaton, betur þekkt sem Sunna Sweetness, er sökuð um að hafa brotið nálgunnarbann og hótað framkvæmdastýru Barnaverndar Reykjavíkur.
Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Sunnu Guðrúnu Eaton fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Málið fjallar um nokkra ákæruliði sem snúa annars vegar að meintu broti Sunnu á nálgunarbanni gegn lögreglumanni og hótanir í garð Halldóru Drafnar Gunnarsdóttur, framkvæmdastýru Barnaverndar Reykjavíkur.

Sunna var handtekin á Múlakaffi þann 17. október síðastliðin þar sem hún var að borða. Lögreglumaðurinn sem er með nálgunarbann gegn Sunnu sat þar að snæðingi í hádeginu þegar hún gekk inn með vinkonu sinni og fengu þær sér einnig að borða.

Sunna segist ekki hafa séð hann fyrr en hún hafi verið búin að fá sér mat á bakka. Hún segist hafa passað sig að snúa frá honum þar sem hún sat og að horfa ekki á hann né veita honum athygli.

„Hann var yesterdays news á þessum tímapunkti. Ég var stressuð yfir því að hann var þarna en ég var ekki að fara að kasta matarbakkanum frá mér og hlaupa út.“

Lögregluþjónninn hefur þrisvar sinnum fengið nálgunarbann gegn Sunnu.

Færðu sig nær vegna opinna dyra

Sunna sagði frá því að viku áður hefði hún setið inni á Múlakaffi þegar lögregluþjónninn gekk inn. Hann sá hana en fékk sér að borða og sátu þau þar bæði inni þar til hún fór. Því hafi hún ákveðið að hætta ekki við að borða, sest niður og snúið baki í lögregluþjóninn.

Hún og vinkona hennar færðu sig þó nær lögreglumanninum og segir Sunna að það hafi þær gert til að vera nær opnum dyrum. Skömmu seinna fór lögregluþjónninn en hann sat þó út í lögreglubíl um stund.

„Allt í einu hópast fullt af löggubílum þarna á ljósum. Yfirleitt þegar fólk er að borða á Múlakaffi kemur það ekki á blikkandi ljósum,“ sagði Sunna. Hún sagðist ekki hafa gert sér í hugarlund að hann hefði farið út í bíl til að „skipuleggja eitthvað“.

Stormar foringinn inn

„Svo stormar hann inn, foringinn í hópnum, dinglandi handjárnum.“ Hún segir að lögregluþjónninn hafi tilkynnt henni að hún væri handtekin fyrir brot á nálgunarbanni og vinkona hennar hefði einnig verið handtekinn sem vitni.

„Þetta var svo kjánalegt. Ég skildi þetta ekki. Ég sit stundum heima og hlæ að þessu. Hann leikur sér að því þarna að snúa upp á mig fyrir gamalt grín. Svo bjó hann til ný lög sem ég held að séu ekki til. Að handtaka vitni.“

Hún sagði lögregluþjóninn hafa „fengið sitt show á Múlakaffi. Hann er með nálgunarbann en er samt að handfjattla mig.“

Áreitið átt sér langan aðdraganda

Lögregluþjónninn sagði fyrir dómnum að hann hefði sjálfur framkvæmt handtökuna ásamt öðrum. Hann sagði að engin orð hefðu farið þeirra á milli en hún hefði vitað af honum. Hann taldi að Sunna hefði átt að yfirgefa Múlakaffi þegar hún áttaði sig á að hann væri þarna inni.

Hann sagði áreiti Sunnu hafa langan aðdraganda og það hafi byrjað í Kringlunni einu og hálfu ári áður en handtakan fór fram. Hann sagði þetta vera lokahnykkinn í löngu ferli.

Hann sagði þetta hafa haft áhrif á sig og truflað einkalíf sitt. Þar að auki sagði hann að lögreglan byggi yfir fjölmörgum gögnum sem sýndu fram á að Sunna hefði áreitt hann, án þess að hann hafi tekið eftir því. Nefndi hann til dæmis að ljósmyndir væru til af henni á svölum við heimili hans.

Verjandi Sunnu benti þó á að engin slík gögn væru hluti af þessu máli. Lögregluþjónninn tók þó fram að hann hefði ekki orðið fyrir áreiti frá Sunnu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×