Innlent

Ákærð fyrir að segjast ætla að pynta framkvæmdastjóra Barnaverndar til dauða

Bjarki Ármannsson skrifar
Skjáskot úr einu myndbanda Sunnu Guðrúnar.
Skjáskot úr einu myndbanda Sunnu Guðrúnar.
Ríkissaksóknari hefur ákært Sunnu Guðrúnu Eaton, konu á fertugsaldri, fyrir brot gegn valdstjórninni og ærumeiðandi aðdróttanir gegn opinberum starfsmanni. Sunnu er gert að sök að hafa hótað Halldóru Dröfn Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur, ofbeldi og lífláti.

Sunna hefur vakið athygli að undanförnu fyrir myndbönd sem hún setur inn á myndbandavefinn YouTube, þar sem hún kallar sig „Sunny Sweetness.“ Myndbandið „Feminists in Iceland,“ þar sem Sunna fer ófögrum orðum um íslenska femínista á ensku, rataði víða á samskiptamiðlum um síðustu áramót en hún hefur líka sent frá sér myndband þar sem hún gagnrýnir Barnavernd Reykjavíkur harðlega.

Samkvæmt ákæru ríkissaksóknara hótaði Sunna Halldóru tvisvar sinnum í samtali við samstarfsfólk Halldóru, árið 2012 og aftur árið 2013.  Í seinna skiptið á Sunna að hafa kallað Halldóru „erkióvin“ sinn og kvaðst ætla að pynta hana til dauða.

Þá á Sunna að hafa sent Halldóru SMS-skeyti í farsíma hennar með skilaboðunum „Barnaræningi“ og „Skítamella.“

Aðalmeðferð í máli ríkissaksóknara gegn Sunnu hefst næsta miðvikudag. Til meðferðar verður einnig ákæra frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna meints brots gegn nálgunarbanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×