Enski boltinn

Pékerman: Falcao og Cuadrado geta blómstrað hjá Chelsea

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Falcao var ekki á skotskónum í fyrsta leik Kólumbíu í Suður-Ameríkukeppninni.
Falcao var ekki á skotskónum í fyrsta leik Kólumbíu í Suður-Ameríkukeppninni. vísir/getty
José Pékerman, þjálfari kólumbíska landsliðsins, segir að Radamel Falcao geti slegið í gegn hjá Chelsea með hjálp landa síns, Juans Cuadrado.

„Ég efast ekki um að þeir muni hjálpa hvor öðrum og þeim muni ganga vel,“ sagði Pékerman um lærisveina sína en Kólumbía mætir Brasilíu í Suður-Ameríkukeppninni í nótt.

Flest bendir til þess að Falcao sé á leið til Englandsmeistaranna en hann náði sér engan vegin á strik með Manchester United í vetur og skoraði aðeins fjögur mörk í 29 deildarleikjum.

Cuadrado kom til Chelsea frá Fiorentina í janúar-glugganum en náði ekki að vinna sér fast sæti í liðinu. Hann segist geta hjálpað Falcao að blómstra hjá Chelsea.

„Ég er ánægður með að hann sé að koma en fyrst þurfum við að einbeita okkur að Suður-Ameríkukeppninni,“ sagði Cuadrado sem lék 12 deildarleiki með Chelsea á síðasta tímabili.

Líklegt er að Falcao komi til Chelsea á árslöngum lánssamningi frá Monaco en hann er enn í eigu franska liðsins. Manchester United átti forkaupsrétt á Falcao eftir síðasta tímabil en félagið ákvað að nýta sér hann ekki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×