Innlent

Landlæknir segir verkfallið munu valda óbætanlegu tjóni

Bjarki Ármannsson skrifar
Birgir Jakobsson er Landlæknir.
Birgir Jakobsson er Landlæknir. Vísir/Stefán
Ástandið sem skapast hefur á heilbrigðisstofnunum landsins vegna yfirstandandi verkfalls BHM er óþolandi og kemur til með að valda óbætanlegu tjóni fyrir fjölda sjúklinga. Stjórnvöld bera nú ábyrgð á því að ljúka þessu ástandi með einum eða öðrum hætti.

Þetta segir í minnisblaði sem embætti landlæknis sendi ríkisstjórn í síðustu viku og birt var á vefsíðu embættisins í dag. Að því er RÚV greinir frá, var bréfið tekið fyrir á fundi ríkisstjórnar í morgun.

„Í ljósi þeirra gagna sem embættið hefur undir höndum frá viðkomandi stofnunum og frá einstökum sjúklingum er rík áhersla lögð á alvarleika málsins,“ segir í áliti landlæknis. „Verkföllum verður að ljúka tafarlaust, ef ekki á illa að fara.“

Jafnframt segir að ástandið sem nú hafi skapast muni skaða heilbrigðisþjónustuna á Íslandi bæði til skamms tíma og til lengri tíma litið.

Greint var frá því á Vísi á laugardag að lagasetning á verkfall BHM væri í bígerð en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að lög verði ekki sett á verkfallið á meðan enn sé líf í viðræðum. Tillaga ríkisstjórnarinnar um skipun sérstakrar sáttanefndar í deilunni var slegin út af borðinu í gær.


Tengdar fréttir

Lög á verkfallið í undirbúningi

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, segir ríkisstjórnina ekki kalla eftir lögum á verkfall BHM á meðan enn er líf í viðræðum. Fréttablaðið hefur þó heimildir fyrir því að slík lagasetning sé í bígerð og lög verði sett eftir helgi, jafnvel strax á mánudag, hafi ekki samist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×