Innlent

Vill hefja vegagerð um Teigsskóg á næsta ári

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vegamálastjóri fagnar úrskurði Skipulagsstofnunar um Teigsskóg og vonast til að framkvæmdir hefjist á síðari hluta næsta árs. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar en Skipulagsstofnun féllst í morgun á beiðni Vegagerðarinnar um að endurskoða umhverfismat hins umdeildar vegar.

Deilur hafa staðið í áratug um framtíðarlegu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit í Austur-Barðarstrandarsýslu. Vegagerðin og sveitarfélög á Vestfjörðum hafa lagt höfuðáherslu á að vegurinn liggi um Teigsskóg en mætt andstöðu landeigenda og náttúruverndarsamtaka, sem höfðu sigur með Hæstaréttardómi fyrir sex árum.

Vegagerðin hefur nú hannað nýja veglínu um Teigsskóg og féllst Skipulagsstofnun á að í henni felist það miklar breytingar að þær réttlæti endurskoðun umhverfismatsins. Breytingarnar fela meðal annars í sér minni skerðingu á skóglendi en milda einnig áhrif á leirur og fjörur þar sem brúarop eru breikkuð á brúm yfir Djúpafjörð og Gufufjörð.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri kvaðst í samtali við fréttastofu fagna þessari niðurstöðu Skipulagsstofnunar og vonast til að hún yrði til að draga úr andstöðu við verkefnið. Vegagerðin mun nú í framhaldinu leggja fram tillögu að matsáætlun fyrir endurskoðað umhverfismat. Vegagerðin vonast til að niðurstaða liggi fyrir og að unnt verði að sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar á fyrri hluta næsta árs.

Gangi það allt eftir kveðst vegamálstjóri vonast til að framkvæmdir hefjist síðla næsta árs og að hægt verði að hleypa umferð á nýjan veg um Teigsskóg árið 2018.


Tengdar fréttir

Vegur um Teigsskóg aftur í umhverfismat

Skipulagsstofnun hefur fallist á beiðni Vegagerðarinnar um að endurskoða umhverfismat vegna hins umdeilda vegar um Teigsskóg í Þorskafirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×