Innlent

Fimm ára perlusnillingur styrkir börn í Nepal

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Fimm ára íslensk stúlka hefur nú perlað yfir hundrað slaufur til styrktar börnum sem eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans í Nepal. Þannig hefur hún safnað tugum þúsunda og er hvergi nærri hætt. 

Emma Sigrún hefur lengi haft gaman að því að perla, og þá sérstaklega slaufur í öllum regnbogans litum. Það var svo fyrir skömmu þegar hún horfði á fréttirnar með mömmu sinni að hún ákvað að perla og hjálpa þannig börnunum í Nepal. Slaufurnar seldu þær mæðgur svo í gegnum Facebook, en þær hafa nú selt 110 stykki. Á slaufunum er ýmist næla eða segull.

„Það er hægt að setja þær á ískápinn,“ segir Emma meðal annars. 

Í gær afhenti Emma svo Unicef rúmlega sjötíu þúsund krónur sem safnast höfðu með slaufusölunni. Peningarnir koma sér vel en talið er að um ein milljón barna þurfi á neyðaraðstoð að halda eftir skjálftann sem varð tæplega átta þúsund manns að bana. 

Framlag Emmu Sigrúnar fer meðal annars í að útvega börnum í Nepal brýnustu hjálpargögn á borð við hreint vatn, tjöld, næringarsölt og lyf.

Pantanirnar eru enn að streyma inn og því ljóst að Emma er hvergi nærri hætt.

„Mig langar ennþá að hjálpa börnunum. Ennþá,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×