Innlent

Íslendingar söfnuðu þrjúhundruð kílóum af fatnaði

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar

Í dag er hjálparstarf í Nepal á fjórða degi. Hundruð þúsunda íbúa hefur misst heimili sín. Margir þeirra eru án matar og vatns. Íslendingar sýndu hlýhug sinn í verki og söfnuðu þrjú hundruð kílóum af fatnaði sem Anup Gurung tekur með sér til Nepal.

Heiða Berglind Fannarsdóttir hjá Artic adventures þaðan sem söfnunin fór fram segir það markmið hafa verið sett í upphafi að safna hlýjum fötum í fáeinar töskur. Árangurinn er langt um fram það.

„Við erum komin með þrjú hundruð kíló nú þegar, þegar við byrjuðum ætluðum við að taka tvær til þrjár töskur með aukalega. Þetta er ótrúlegt.“

Heiða Berglind segir fjölmarga hafa lagt mikla vinnu í það sem gefið hefur verið til söfnunarinnar. Það gerðu vistmenn á sambýli í Reykjavík sem gáfu ársvinnu sína. „Til dæmis fengum við tvo ruslapoka frá sambýli í Reykjavík. Þau höfðu verið að prjóna og þetta var afrakstur prjónverks ársins, þau ætluðu að selja þetta en vildu frekar koma með þetta hingað. Okkur fannst það fallegt.“

Anup Gurung hefur búið á Íslandi í fimmtán ár og er á leið til Nepal og fær aðstoð Jónar transport til að flytja fatnaðinn. Hann segir hlýhug Íslendinga hafa komið sér á óvart „Þetta byrjaði sem eins manns verkefni, en hefur nú undið upp á sig, nú trúi ég að það hafi safnast um milljón krónur og að auki 150 kíló af mat.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.