Menning

Ekkert verður af komu Terfel á Listahátíð

Bjarki Ármannsson skrifar
Terfel þurfti að hætta við tónleika í Eldborg í fyrra eftir nokkur lög.
Terfel þurfti að hætta við tónleika í Eldborg í fyrra eftir nokkur lög. Vísir/Getty
Velski bass-barítónsöngvarinn Bryn Terfel mun ekki koma fram á Listahátíð í Reykjavík í sumar. Hætta þurfti við tónleika söngvarans í Eldborg í Hörpu í maí í fyrra eftir aðeins nokkur lög þegar röddin brást honum en til stóð að hann kæmi aftur til landsins síðar.

Eftir að hætt var við tónleikana stóð fyrst til að Terfel, sem kom fram á Listahátíð árið 2007 í Háskólabíói, sneri aftur í júlí sama ár en það gekk ekki eftir. Í stað þess var stefnt að því að fá Terfel á Listahátíð í júní nú í ár en í tilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar segir að ekki hafi náðst ásættanlegt samkomulag um endurkomu Terfel.

„Á síðustu vikunum fyrir kynningu dagskrárinnar í ár, varð ljóst að of mikið bæri í milli í samningaviðræðum Listahátíðar og umboðsaðila Terfel til að samningar næðust. Því miður varð það því niðurstaðan að endurkoma söngvarans yrði ekki á vettvangi Listahátíðar í ár, þó að það hafi verið vilji allra sem að málinu standa,“ segir Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í tilkynningu. „Vonandi verður það síðar þó að ekki verði af því í ár.”

Allir þeir sem keyptu miða á tónleika Terfel í fyrra, og ekki hafa þegar fengið endurgreitt, munu getað fengið miða sína endurgreidda frá og með þriðjudeginum 14. apríl. Endurgreiðslan fer fram í gegnum miðasölu Hörpu.


Tengdar fréttir

Terfel mætir aftur í sumar

Velski bass-barítóninn Bryn Terfel mun snúa aftur til landsins og halda aðra tónleika, en honum tókst ekki að ljúka einsöngstónleikum sínum á Listahátíð í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×