Innlent

Hefur ekki náð samkomulagi við Omos um greiðslu skaðabóta

Birgir Olgeirsson skrifar
Gísli Freyr Valdórsson.
Gísli Freyr Valdórsson. Vísir/GVA
„Við getum sagt að boltinn sé hjá gagnaðilanum, hvað gerist fyrir fundinn veit ég ekki,“ segir Ólafur Garðarsson, verjandi Gísla Freys Valdórssonar, um samningaviðræður við Tony Omos um skaðabætur vegna lekamálsins.

Gísli Freyr játaði að hafa lekið persónuupplýsingum um Omos sem birtust í fjölmiðlum en Omos hefur krafið Gísla Frey um fimm milljónir króna í bætur vegna lekans. Fyrirtaka í skaðabótamáli hans gegn Gísla Frey fer fram á morgun en Ólafur Garðarsson segir samningar ekki hafa náðst. „Það hefur tekist að sætta hin tvö málin en ekki þetta að sinni allavega, það er búið að reyna mikið,“ segir Ólafur.

Hin tvö málin sem hann vísar til varða íslenska konu og Evelyn Glory Joseph en upplýsingar um þær voru einnig í því minnisblaði um Tony Omos sem Gísli Freyr lak úr innanríkisráðuneytinu þegar hann gegndi starfi aðstoðarmanns innanríkisráðherra.

Íslenska konan krafði Gísla Frey um 2,5 milljónir króna en Evelyn krafði hann um 4,5 milljónir króna.

„Það er búið að sætta hin tvö málin og við ákváðum að vera ekki ræða um fjárhæðirnar en þær eru töluverðar,“ segir Ólafur. Hann segist ekki geta svarað því hvort samningaviðræður munu eiga sér stað fyrir fyrirtökuna á morgun. Spurður hvort mikið beri á milli Gísla Freys og Omos svarar Ólafur: „Nei, það held ég ekki. En það er kannski eitthvað annað, ég get ekki svarað fyrir Tony.“


Tengdar fréttir

Gísli Freyr greiðir íslenskri konu bætur

Fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra og íslensk kona sem nafngreind var í minnisblaði í tengslum við Lekamálið svokallaða hafa náð sáttum um að Gísli Freyr greiði henni bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×