Innlent

Jón Gnarr: Sorphirða í Reykjavík óhagkvæm og óþarflega dýr

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/ernir
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, segir í nýjum pistli sínum í Fréttablaðinu í dag að sorphirða í Reykjavík og víða á Íslandi sé óhagkvæm og óþarflega dýr. Hún sé illa skipulögð og hugmyndafræðin að baki henni röng. Hann líkir Íslendingum við ábyrgðalaus börn sem fleygi frá sér rusli og telji það á ábyrgð annarra að þrífa það upp.

Tilefni pistilsins, sem ber yfirskriftina Heimspeki lúxus-sósíalismans, er sorphirða í Houston í Bandaríkjunum, þar sem Jón nú dvelst. Þar eru rusl tæmd einu sinni í viku og fer hver og einn með sína ruslafötu út á götu kvöldinu áður en hana á að tæma. Sé það ekki gert eru ruslaföturnar ekki tæmdar.

„Á meðan flest siðmenntuð samfélög virðast vinna að því að auka sjálfsábyrgð íbúa á sem flestum sviðum, virðumst við vera annað hvort langt á eftir og virðumst ekki skilja þessa einföldu hugmyndafræði, eða erum að fara algjörlega í hina áttina. Okkur finnst í svo mörgu að hin svokölluðu yfirvöld eigi að sjá um hlutina fyrir okkur,“ skrifar Jón Gnarr í pistlinum.

„Þeim ber skylda til að þrífa upp draslið sem við hendum á götuna, vera með her manns á launum við að sækja draslið okkar upp að dyrum og taka meira að segja jólatrén þegar jólin eru búin,“ bætir hann við.

Jón segir það stórmerkilega þversögn að þeir pólitísku flokkar sem kenni sig við sjálfstæði og einstaklingsábyrgð séu þeir sem reki hvað hatrammastan áróður fyrir slíkum munaðarsósíalisma „eins og hin árlega uppákoma borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þegar þeir fara um borgina, ásamt blaðamanni Morgunblaðsins, og hirða upp jólatré sem fólk hefur hent út um gluggann“.

Hann segir að breyta þurfi þessari hugsun. Hún sé dýr í rekstri og íbúarnir verði eins og ofdekraður unglingur sem kann ekki á þvottavél. Pistil Jóns má lesa í heild hér.


Tengdar fréttir

Gosi

Tilvera mín hefur lengi verið mér hugleikin. Hver er ég? Hvaðan kem ég? Hvert fer ég? Hef ég sál eða anda? Ég hef lesið aragrúa bóka um andleg málefni, kynnt mér alls konar hugleiðslur og trúarrit og kenningar helstu heimspekinga.

Heimspeki lúxus-sósíalismans

Þegar ég var barn þurfti ég aldrei að þrífa eftir mig. Ég þvoði ekki upp diska eða glös. Ég þvoði ekki af mér fötin. Ég henti þeim bara á gólfið þar sem ég fór úr þeim, svo birtust þau nokkrum dögum síðar hrein og samanbrotin í fataskápnum.

Hinn grái hversdagsleiki

Þegar Evrópusambandið ber á góma verða alltaf hróp og köll. Það er furðulegt sökum þess, að um er að tefla fyrirbæri sem er alltumlykjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×