Innlent

Kólumbíski herinn hættir árásum á skæruliða FARC

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Átök FARC við kólumbísk stjórnvöld hafa staðið yfir í hálfa öld.
Átök FARC við kólumbísk stjórnvöld hafa staðið yfir í hálfa öld. Vísir/Getty
Kólumbíski herinn mun gera hlé í einn mánuð á sprengjuárásum gegn skæruliðahópnum  FARC.

Forseti Kólumbíu, Juan Manuel Santos, segir að ákveðið hafi verið að hætta árásunum þar sem FARC hafi staðið við einhliða vopnahlé sitt sem lýst var yfir þann 18. desember síðastliðinn.

Andstæðingar forsetans segja að með því að stöðva árásirnar á FARC sé hann að gefa þeim aukið svigrúm en loftárásir hafa verið lykilatriði í öllum aðgerðum hersins gegn skæruliðunum.

FARC og kólumbíska ríkisstjórnin eiga í friðarviðræðum sem fara fram á Kúbu og hafa staðið allt frá árinu 2012. Ýmsum áföngum hefur verið náð í viðræðunum en enn hefur ekki tekist að semja um endanlegan frið í landinu.

Talið er að meira en 220.000 manns hafi látist í átökum FARC við kólumbísk yfirvöld sem staðið hafa yfir í hálfa öld. Meirihluti þeirra sem látið hafa lífið eru óbreyttir borgarar.

FARC var stofnað árið 1964 sem hernaðararmur kommúnistaflokksins í Kólumbíu, eftir að kólumbíski herinn réðst á landsvæði kommúnista í sveitum landsins.

Þær árásir komu í kjölfar 10 ára borgarastríðs í landinu, sem kallað hefur verið La Violencia, og stóð frá 1948-1958.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×