Innlent

Börnin skila sólmyrkvagleraugunum að notkun lokinni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Skóla- og frístundasvið vill árétta að sólmyrkvagleraugun sem afhent verða í grunnskólum landsins á næstu dögum verði notuð sem kennslugögn. Börnin fá þau ekki að gjöf og skila gleraugunum að notkun lokinni.

Vísir greindi frá því í morgun að 52 þúsund grunnskólabörnum og –kennurum yrðu afhent hlífðargleraugun í tilefni sólmyrkvans 20. mars. Skóla- og frístundasvið vísar í reglur Reykjavíkurborgar sem kveða á um að ekki megi gefa börnum í grunnskólum Reykjavíkurborgar gjafir, séu á þeim merkingar. Afhending gleraugnanna var leyfð á grundvelli þess að þau yrðu nýtt í fræðsluskyni.

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, sagði í samtali við Vísi á dögunum að útilokað væri að fá slík gleraugu, eða vörur almennt, sem ekki eru merktar framleiðanda. Umrædd gleraugu eru merkt framleiðandanum Baader og hafa hingað til ekki verið seld á Íslandi.

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness, Stjörnufræðivefurinn og Hótel Rangá standa fyrir verkefninu og affhenda fyrstu gleraugun í Rimaskóla klukkan ellefu í dag.


Tengdar fréttir

Dimmasti sólmyrkvi á Íslandi frá árinu 1954

Sólmyrkvi, sá mesti hérlendis í sextíu ár, verður þann 20. mars næstkomandi, eftir tæpa þrjá mánuði, - þá rökkvast himinn í nokkrar mínútur þegar venjulega er hábjartur dagur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×