Innlent

„Að þetta geti gerst er með ólíkindum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Mynd/Björn Grímsson
Velferðarráð Reykjavíkurborgar fundar í dag líkt og venja er á fyrsta fimmtudegi hvers mánaðar.

Fastlega má búast við því að málefni ferðaþjónustu fatlaðra verði ofarlega á baugi eftir að þroskaskert stúlka gleymdist í bíl á vegum þjónustunnar í gær og var læst inni í honum í marga klukkutíma.

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í velferðarráði, segir málið grafalvarlegt.

„Að þetta geti gerst er með ólíkindum og það er augljóst að þarf að fara yfir alla þessa ferla, líka þá sem fara í gang þegar barn skilar sér ekki. Hvert er það ferli? Í hvern er hringt? Foreldrarnir telja að barnið sé bara á sínum stað en það er það ekki og ég velti fyrir mér af hverju er ekki farið að leita fyrr, hringt í foreldrana eða eitthvað slíkt,“ segir Áslaug María í samtali við Vísi.

Hún segist ætla að óska eftir upplýsingum um þetta á fundi ráðsins í dag en tekur jafnframt fram að umræða um ferðaþjónustu fatlaðra hafi margoft farið fram.

„Við höfum verið að krefjast svara um hvernig Strætó hefur verið að bregðast við því sem Strætó hefur verið í miklum vandræðum með. En þarna er kominn nýr vinkill,“ segir Áslaug og bætir við að það sé alltaf að koma betur og betur í ljós hversu illa gangi að koma þjónustunni á.


Tengdar fréttir

Svona týndist stúlkan

„Þetta er alveg hrikalega sorglegt atvik,“ segir eigandi fyrirtækisins sem sinnti akstri fyrir ferðaþjónustu fatlaðra í dag þar sem 18 ára þroskaskert stúlka týndist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×