Innlent

Hagsmunasamtökin töpuðu málinu gegn Íbúðalánasjóði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir.
Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir. Vísir/GVA
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Íbúðarlánasjóð í máli hjónanna Helgu Margrétar Guðmundsdóttur og Theódórs Magnússonar gegn sjóðnum. Hagsmunasamtök heimilanna, með Vilhjálm Bjarnason „ekki fjárfesti“ í broddi fylkingar, ráku málið fyrir hönd þeirra hjóna.

Samtökin sökuðu Íbúðarlánasjóð um að hafa veitt vísvitandi rangar upplýsingar þegar þau tóku húsnæðislán hjá sjóðnum. Þótti þeim óttækt að í lánasamningnum væri miðað við 0% verðbólgu enda hefði aldrei verið 0% verðbólga hér á landi.

Með því að miða útreikninga á lántökukostnaði, árlegri hlutfallstölu kostnaðar og afborgunum lána við 0% væri verið að blekkja neytendur. Verðbæturnar væru svo ekki settar inn í greiðsluáætlun auk þess sem dæmi væri um að engin greiðsluáætlanir fylgdu lánum á borð við þau sem hjónin tóku.

Áslaug Árnadóttir, lögmaður Íbúðalánasjóðs.Vísir/GVA
Ekki villandi viðskiptahættir

Héraðsdómur taldi að ekki hefði komið fram í dómsmeðferðinni að vanræksla Íbúðalánasjóðs við upplýsingagjöf um lántökukostnað hefði haft slíkar afleiðingar fyrir hagsmuni hjónanna að það gæti leitt til ógildis á ákvæði fasteignaverðbréfsins um verðtryggingu. Þá var einnig hafnaði þeirri málsástæðu stefnenda að samningurinn hefði brotið gegn ákvæðum laga um villandi viðskiptahætti.

Var Íbúðalánasjóður því sýknaður af kröfum hjónanna en um leið tekið fram að engin afstaða væri tekin til þess hvort hjónin eigi kröfu um skaðabætur frá Íbúðalánasjóði.

Dómurinn taldi rétt að Íbúðalánasjóður greiddi sinn kostnað af rekstri málsins en Helga og Theódór nutu gjafsóknar.

Þórður Heimir Sveinsson, lögmaður hjónanna, segir að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.Vísir/GVA
Málinu verður áfrýjað

„Það eru auðvitað vonbrigði að hafa ekki unnið þetta mál,“ sagði Þórður Heimir Sveinsson, lögmaður hjónanna, í samtali við Vísi að lokinni dómsuppsögu.

„Það er nokkuð ljóst að málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar,“ sagði Þórður. Næsta skref væri að fara að kynna sér niðurstöðu dómsins. Reiknaði hann með því að áfrýjunin yrði innan þriggja mánaða svo málflutningur í Hæstarétti færi líkast til fram í október eða nóvember.

Dóminn í heild sinni má sjá hér.

Vilhjálmur Bjarnason ræddi niðurstöðu málsins í samtali við Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni. Hlusta má á viðtalið í spilaranum að neðan.






Tengdar fréttir

Hagsmunasamtök heimilanna: Ágætar tillögur, eins langt og þær ná

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna telur að að aðgerðaáætlun um höfuðstólslækkun húsnæðislána feli í sér ágætar tillögur "eins langt og þær ná, en að þær séu samt sem áður allt of léttvægar miðað við ástandið eins og það er orðið í dag.“

Dómur sem snýst um 400 milljarða fellur

Ögurstund upp runnin hjá Vilhjálmi Bjarnasyni og HH: "Ég er búinn að bíða eftir þessu í fimm ár.“ Segir þetta stærsta mál Íslandssögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×