Innlent

Mikið um útköll vegna ölvunarláta

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Kolbeinn
Mikið var um útköll lögreglu í nótt vegna ölvunarláta. Flest þeirra voru af þeim toga að þau leystust áður en lögregla kom á staðinn, eða með „laufléttum tökum lögreglu,“ eins og segir í tilkynningu frá lögreglunni. Þá var nokkuð um tilkynningar um ökumenn í annarlegu ástandi.

Vegna ýmissa mála fylltust fangageymslur svo til í nótt, þar af voru tveir klefar fullir vegna beiðna um gistingu.

Lögreglan segir greinilegt að borgarar landsins séu meðvitaðir um aðra ökumenn í umferðinni. Einn maður sem stöðvaður var við ölvun í akstri í nótt, brást illa við afskiptum lögregluþjónanna og hótaði þeim ofbeldi. Hann var settur í fangaklefa yfir nóttina.

Þá var tilkynnt um mjög ölvaðan ungan einstakling sem gengið hafði berserksgang í veislu, en enginn var þó slasaður eftir. Sá var vistaður í fangaklefa en ekki var hægt að ræða við hann vegna ölvunar.

Lögreglan fékk í gærkvöldi tilkynningu um ungmenni með landabrúsa. Í ljós kom að þau voru með tvo brúsa og sögðust eiga þá. Lögreglan haldlagði landann og hafði samband við forráðamenn. Þá fór mjög ölvaður maður inn á hótelherbergi og reyndi að taka þar muni ófrjálsri hendi. Hann náðist og var vistaður í fangaklefa þar til hægt væri að ræða við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×