Innlent

Flensan skæðari í ár

Lyllý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Vísir/Getty
Flensan er skæðari nú en síðustu tvö ár, sjúklingarnir verða veikari en áður og sumir liggja í rúminu á aðra viku. Þetta segir lækningaframkvæmdastjóri Læknavaktarinnar þar sem mikið álag hefur verið síðustu daga.

Inflúensan breiðist nú hratt út í samfélaginu. Fjöldi tilkynninga um flensuna til Landlæknisembættisins hefur aukist mikið síðustu vikuna enda hafa margir leitað til lækna vegna flensunnar. Mikið álag hefur til að mynda verið á Læknavaktinni síðustu daga.

„Síðustu vikur þá hefur verið hratt vaxandi álag hérna á Læknavaktinni svona eins og gerist í flensutíma. Þegar inflúensan fer að herja þá eykst álagið hérna hjá okkur og nú eru að koma svona 250 manns til okkar á kvöldi, svona á virkum dögum, meðan á venjulegum degi eru þetta kannski 170 manns,“ segir Gunnlaugur Sigurjónsson lækningaframkvæmdastjóri Læknavaktarinnar.

Hann segir inflúensuna nokkuð skæða í ár.

„Hún er skæðari en síðustu tvö ár myndi ég segja. Fólk verður veikara, er jafnvel lengur veikt, margir eru veikir á aðra viku. Svo er alltaf einn og einn sem fær berkjubólgu eða lungnabólgu upp úr flensunni,“ segir Gunnlaugur. Þá segir hann flensuna heldur leggjast á yngra fólk en eldra nú.

Hann segir mikilvægt að fólk haldi sig heima ef það fer að finna fyrir einkennum. „ Það borgar sig allavega að vera heima og ekki vera að fara á vinnustaði eða í skóla til að dreifa smitinu, “  segir Gunnlaugur Sigurjónsson hjá Læknavaktinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×